144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það plagg sem hv. þingmaður vísar hér í og hélt hér á í pontu felur vissulega í sér mjög mikilvæg rök í allri umræðu um rammaáætlun. Þarna er hins vegar ekki að finna flokkun. Þarna er að finna stigagjöf úr einstökum faghópum. Sem dæmi getum við tekið Norðlingaölduveitu sem bæði fékk hátt skor, ef ég má orða það svo óvirðulega, í nýtingarflokki og í verndarflokki. Svo var það niðurstaða að raða Norðlingaölduveitu í verndarflokk.

Það sem hefur gerst síðan — og það er það, herra forseti, sem ég hef verið að leggja áherslu á — er að í framhaldinu eru þeir kostir sem samþykktir voru í biðflokk á Alþingi 2013, ásamt öðrum kostum sem við getum kallað nýja kosti, teknir í efnislega umfjöllun og röðun hjá verkefnisstjórn 3. áfanga. Þegar ég segi að mér finnist ekki ganga upp að vitna til fjögurra ára gamalla plagga þá er ég ekki að gera lítið úr því eða segja að þar liggi ekki heilmikil fagleg vinna. Það sem ég er að segja er að við sem störfum hér á Alþingi þurfum að taka tillit til þess sem hefur gerst síðan.

Það sem hefur gerst síðan er að við erum búin að samþykkja rammaáætlun, það er búið að skipa nýja verkefnisstjórn. Hún er að störfum við að raða niður 26 verkefnakostum ef ég man rétt og flokka þá út frá því samhengi hvað eigi heima í vernd og nýtingu og hvað eigi að vera áfram í bið. Hæstv. umhverfisráðherra bað þessa verkefnisstjórn sérstaklega að skoða átta kosti og það varð niðurstaða hennar að einn væri fullrannsakaður. Mér finnst, án þess að ég sé að gera lítið úr því sem áður hefur gerst í ferlinu, að við séum núna stödd á öðrum stað og við getum ekki rætt þetta mál nema taka tillit til þess sem hefur gerst síðan.