144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að segja að umhverfismat framkvæmda, sem hv. þingmaður nefnir, er annar liður í þessu ferli. Það ferli sem stendur yfir núna er röðun verkefnisstjórnar sem er, samkvæmt lögum um rammaáætlun, hið viðurkennda stjórnvald sem hefur það verkefni með höndum að skila tillögu til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um tiltekna kosti. Það er hennar verkefni samkvæmt lögum að raða þessum kostum í nýtingu, bið og vernd eins og við þekkjum. Það er verkefni hæstv. umhverfisráðherra að óska eftir umsögnum um þá kosti eins og gert var með tillögu verkefnisstjórnar um Hvammsvirkjun. Síðan getum við þingmenn, þegar þessu starfi er lokið, farið að ræða málin. En mér finnst ekki hægt að grípa inn í það ferli sem stendur yfir hjá verkefnisstjórn. Það er þannig. Það ferli stendur yfir eins og ég fór hér yfir í minni örræðu. Verði þessi tillaga samþykkt, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, (Forseti hringir.) þá erum við þingmenn að grípa inn í ferlið. Það eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti, það er algjörlega á hreinu.