144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef litlu að bæta við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan. Ég held að það sé hið besta ráð að reyna núna að hvíla fundarmenn og sérstaklega þá sem treysta sér ekki til að mæta og eru væntanlega kvöldsvæfir; þeir eru að minnsta kosti ekki hér, nema þeir séu að gera eitthvað annað skemmtilegt utan þessa vinnustaðar. Það er alveg rétt að það er fjölþætt það sem hér fer fram þó að vissulega hafi enginn úr stjórnarandstöðunni talið það eftir sér að standa hér og ræða þessi mál.

Það er nú samt svo að þeir sem bíða eftir því að fá kjör sín leiðrétt, hvort sem það er fólk á vinnumarkaði, elli- eða örorkulífeyrisþegar eða hverjir það nú eru, borða ekki fyrirhugaðar virkjanir, það er alveg ljóst. (VigH: En skrýtið.) Þeir þurfa að fá eitthvað annað, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Það væri óskandi að hún tæki hér meiri þátt í fundarstjórn forseta til þess (VigH: … efnislega, ég var að …) að koma skoðunum sínum á framfæri því hún hefur mikið af þeim og hefur örugglega eitthvað gott til málanna að leggja í átt til (Forseti hringir.) friðar. (VigH: Ég var að setja mig á mælendaskrá.)