144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér til hljóðs til að andmæla orðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Mér finnst þetta ekki mjög rismikill málflutningur hjá hv. þingmanni. Við þingmenn Vinstri grænna vorum raunar búin að gera hæstv. forseta viðvart um að það yrði erfitt fyrir okkur að sækja kvöldfund í kvöld. Hæstv. forseti ákvað að taka ekki tillit til þess og hér eru sex af sjö þingmönnum Vinstri grænna, sá eini sem ekki er hér er erlendis eða á leiðinni heim að utan í lögmætum erindagjörðum á vegum Alþingis. Hv. þingmaður kemur hér, kvartar undan umræðunni, ber sig illa, og segir svo: Hér er enginn mættur. — Hér eru tíu hv. þingmenn meiri hlutans af þeim 38 sem hann skipa. Er nú ekki rétt að við höfum staðreyndirnar á hreinu, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál?