144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Forseti Alþingis úrskurðar af forsetastóli. Þingmenn sem tjá sig úr ræðustóli gera það ekki sem forsetar Alþingis. Það má mikið vera ef mér skjöplast í því minni mínu að forseti hafi sagt hér fyrr á fundinum að fundur stæði ekki lengur en til miðnættis. Það er mikilvægt að þau orð sem forseti lætur falla um dagskrá fundarins af forsetastóli haldi því að fólk gerir sínar ráðstafanir í samræmi við það. Ég sé að stjórnarþingmenn úr atvinnuveganefnd hafa þegar farið heim af fundinum vegna þess að ljóst er að þeir töldu að umræðunni mundi ekki fram halda — ekki allir stjórnarþingmennirnir í nefndinni, heldur tilteknir þingmenn þar. Ég held því að það sé bara eðlilegt að halda þeirri venju sem verið hefur, að hefja ekki nýja ræðu ef ekki er tími til að taka andsvör fyrir áætlaðan fundarlokatíma.