144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér ríkir mjög djúpstæður ágreiningur, ekki bara um málið heldur málsmeðferðina. Þegar tveir deila og það harkalega og allt er komið í hnút er oft gott að einhver milligöngumaður taki að sér að reyna að ná sáttum. Við erum bara með gott dæmi um ríkissáttasemjara, hann heldur utan um málið og reynir að vera milligöngumaður. Hjónabandsráðgjafi er annað dæmi sem hefur verið nefnt hérna. Skólastjóri kallar stundum á þá sem deila á sinn fund.

Hæstv. forseti er maður sátta. Ég ber virðingu fyrir forseta og skil hans erfiðu stöðu, en mér finnst að við ættum að vera með sáttafundi og að hæstv. forseti ætti að vera þessi milligönguaðili. Ég kalla eftir að það verði gert eins og skólastjóri kallar deiluaðila á sinn fund eða hjónabandsráðgjafi.