144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Eftir deilur undanfarna daga og margar ræður þar sem ég hef lýst yfir óánægju minni með fundarstjórn forseta er mér það mikið gleðiefni að koma upp núna og lýsa yfir ánægju með ákvörðun forseta. Mér finnst hún skynsamleg og þetta er góð fundarstjórn. Við setjum hér deilumálið til hliðar og finnum því uppbyggilegri farveg. Í þessari ákvörðun liggja stór og góð tækifæri fyrir okkur öll til þess að bæta nú þann brag sem verið hefur á þingstörfunum, að efla hér samstöðu. Það eru fjölmörg mál sem við getum rætt hér og væntanlega fjölmörg mál sem eru væntanleg frá ríkisstjórninni sem eru aðkallandi. Það eru kjaradeilur í landinu. Við getum rætt þær og reynt að koma með uppbyggilegt innlegg til lausnar á því öllu saman. Í þessari góðu ákvörðun liggja mikil tækifæri þó að málið fari ekki frá okkur. Hafðu þökk fyrir.