144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég tek það fram og tók fram á sínum tíma að ég hafði mikinn skilning á þeirri erfiðu stöðu sem Færeyingar voru í. Þeir voru satt best að segja í hroðalegri klípu með öll sín samningamál við Noreg og Evrópusambandið í uppnámi og höfðu í raun og veru hvergi land undir fótum í þeim samskiptum nema gagnvart Íslandi og Rússum. Og refsiaðgerðirnar sem þeir sættu þarna á tímabili voru auðvitað hneyksli, þær voru ekkert annað, ævintýraleg staða að land sem var hluti af danska konungsríkinu skyldi beitt refsiaðgerðum sem Danir voru, vegna aðildar sinnar að Evrópusambandinu, þátttakendur í, það er eiginlega ótrúlegt.

Það breytir ekki hinu að við hljótum að þurfa að horfa til þess hvaða áhrif þetta hefur á okkur og okkar hagsmuni og samningsstöðu. Það má segja að í einu vetfangi eftir leynisamningana í Skotlandi hafi málin snúist þannig að í staðinn fyrir að Færeyingar voru aðkrepptir og einangraðir var Ísland skilið eitt eftir einangrað pólitískt á þessu sviði. Framkoma Norðmanna er kapítuli algjörlega út af fyrir sig. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það varð smátt og smátt ljóst, ég tel nú kannski ekki að það hafi legið skýrt fyrir frá upphafi, en í öllu falli eftir árangurslausar samningaumleitanir um makrílinn í London í byrjun september 2012, sem ég sótti ásamt með frú Damanaki og ráðherra Noregs og Færeyja, hvar vandinn lá og það var hjá Noregi. Það var enginn vilji til þess að hreyfa málin, en Evrópusambandið var þá byrjað að teygja sig verulega í átt til okkar sjónarmiða og eins og kunnugt er var svo síðar tilbúið til að fallast á hlutdeild sem flestir hefðu sennilega metið nokkurn veginn fullnægjandi af okkar hálfu.