144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áhyggjuefni hversu rýrnað hefur í fjárframlögum til Vegagerðarinnar á grundvelli þeirrar skiptingar sem hv. þingmaður nefnir. Ég get sagt við hv. þingmann af þessu tilefni að ég hef ákveðið að setja af stað vinnu við þetta tiltekna atriði. Það verður ekki gert á vegum innanríkisráðuneytisins eins og sér. Hér þarf til að koma samstarf við fjárveitingavaldið, Alþingi að sjálfsögðu númer eitt, tvö og þrjú og fjármálaráðuneytið. Ég tel mjög brýnt að menn fari rækilega yfir þessa þætti. Ég veit að á fyrri stigum hafa menn haft ýmsar hugmyndir sem ég er með á mínu borði og hef verið að fara yfir. Ég hef ekki lagt sjálf endanlegt mat á þær, en það er alveg ljóst að það eru ýmsar hugmyndir uppi nú þegar í gögnum ráðuneytisins sem gætu gagnast við fjármögnun samgöngukerfisins til framtíðar.

Ég hygg að um leið og við lítum til allrar fjárþarfar sem er í samgöngukerfinu þá verður að leita (Forseti hringir.) frekari leiða til fjármögnunar þess en við horfum upp á núna.