144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á það að þessi samgönguáætlun kæmi seint fram. Það má segja að hún geri það sannarlega, ef starfslokum þingsins hefði ekki verið frestað hefði hún væntanlega ekki komið fram nema 1,8 milljarðar — var það ekki það sem hefði þá verið samþykkt fyrr og eitthvað hefði breyst? En þinginu átti að vera lokið þegar samgönguáætlunin kom fram. Ég verð að segja frá eigin brjósti að ég held að það hljóti að vera mjög ólíklegt að það takist að klára þessa samgönguáætlun áður en þingi lýkur, en ég skal svo sem ekki dæma um það.

Hv. þingmaður minntist á hugtak sem ég hef svo sem heyrt en ekki í sambandi við samgönguáætlun. Ég held að hann hafi talað um núllstillingu — (RM: Núllsýn.) núllsýn. Ég vil biðja hann um að útskýra fyrir mér hvað það þýðir í raun og veru.