144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á þá samgönguáætlun sem hér lítur dagsljósið. Við höfum kallað eftir henni mjög lengi og eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir er þetta seinna á ferð en allir hefðu viljað. Það er í sjálfu sér ágætt að áætlunin er komin fram og að við getum farið að ræða um hana.

Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd get ég ekki annað en gagnrýnt það hvernig ákvörðun var tekin um viðbótarfjármagnið, sem hér er haldið fyrir utan, ef það er rétt að það sé fram hjá samgönguráði og öllu þessu hefðbundna ferli og er ekki haft hér með heldur. Það er ekki góð stjórnsýsla. Á sama tíma fagnar maður alltaf auknu fé í þá mikilvægu innviði sem samgönguáætlun er. Þegar fjárlaganefnd fær til sín gesti þá er það sem tekið er á í samgönguáætlun eitt af því sem flestallir sveitarstjórnarmenn byrja og enda á að ræða, þ.e. vegamálin, fjarskiptamálin og hafnirnar. Þetta eru stór mál í hverju einasta sveitarfélagi þannig að hér eru margir sem koma til með að hafa miklar skoðanir á þessu og því velti ég því fyrir mér hvort okkur gefist tími til að ganga þannig frá þessu að það náist að samþykkja það á þessu þingi.

Töluvert hefur verið komið inn á tilteknar framkvæmdir sem tilheyra mínu kjördæmi. Ég gleðst yfir þeim fjármunum sem settir eru í endurnýjun hafnarbryggju í Fjallabyggð á Siglufirði, það er orðið mjög tímabært. Hér eru einnig aðrar smávægilegar framkvæmdir sem eru þó sumar teygðar heldur of mikið, finnst mér og fleirum, meira en góðu hófi gegnir.

Mig langaði aðeins að fara ofan í texta þingsályktunartillögunnar. Við vitum að Vegagerðin er fjármögnuð með mörkuðum tekjum og beinu framlagi og áhöld eru um það í fjárlaganefnd hvort stofninn á áfram að vera markaður eða ekki. Hér hefur einmitt verið rætt að tekjurnar hafi ekki verið hækkaðar í takt við verðlagið og við höfum ekki farið varhluta af því í fjárlaganefnd að það hefur komið til tals. Ég hef gagnrýnt það mjög að Vegagerðin skuli, á þeim tímum sem nú eru, vera látin greiða til baka fyrir fram greiddar, markaðar tekjur, sem svo hefur verið kallað, og hér sýnist mér, ef það er rétt skilið hjá mér, verið að tala um 81 milljarð. Uppi hefur verið ágreiningur um það hvort greiða eigi upphæðina til baka þar sem hún tilheyrir verkefnum sem ákveðin voru af hálfu ríkisstjórnar — Vegagerðin gerði kannski ekki ráð fyrir að þurfa að greiða þetta með þessum hætti — í staðinn fyrir að taka á þessu og fella þetta niður, sem ætti að gera að mínu viti, og kannski nýta það fé sem Vegagerðin er alltaf að borga til baka í þær mörgu þörfu aðgerðir sem hér eru taldar upp.

Það er áhugavert að lesa hér í textanum þar sem talað er um hvernig verkefnin eru að þróast, hvernig þau breytast og kostnaður því samfara, sem kemur vegna umhverfis- og skipulagsreglugerða, þar sem þarf að leita mun víðtækara samráðs en áður var. Það leiðir þá af sér aukinn kostnað og hlutirnir taka líka lengri tíma. Þetta er eitt af því sem mér finnst að við þurfum að taka mikið tillit til.

Hér var talað um öryggi, meðal annars um myndavélar. Það er verið að tala um vegkanta, einbreiðar brýr og fleira, margt sem snýr að öryggismálum. Allt er þetta í svo miklu lágmarki að það er eiginlega bara verið að gera það sem allra nauðsynlegast er. En samt kemur hér fram að fjárþörfin er slík að það nægir varla til að verja vegakerfið skemmdum eða halda uppi viðunandi þjónustu. Þetta er mjög víða að finna í textanum og það er eitthvað sem okkur þykir afskaplega miður, þegar úttektir á umferðaröryggi sýna að það er mjög brýnt að sinna þessum þáttum, meðal annars vegriðum.

Mig langar aðeins að koma inn á Landeyjahöfn. Ég ætla ekki að tala niður samgöngubætur til handa nokkrum manni þar sem ég er búsett í sveitarfélagi sem býr við afskaplega góðar samgöngur sem hafa verið bættar ár frá ári. En þeir sem eiga hagsmuna að gæta, í því að vinna við að dýpka höfnina o.s.frv. og halda henni opinni, segja að þetta sé nánast óvinnandi vegur, burt séð frá því hvort ný ferja verði komin eða ekki. Þegar ég les það get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni hvort tímabært sé að endurskoða þessa ákvörðun. Eru aðrir möguleikar í stöðunni? Er verjandi að halda áfram á þessari leið þegar þau ár sem liðin eru hafa sýnt okkur að kostnaður er yfirþyrmandi og kannski óvinnandi vegur að hafa hlutina þannig að vel sé. Eyjamenn sækjast eftir því að þetta verði heilsársumferðaræð en forstjóri Björgunar telur að svo geti ekki orðið miðað við ástandið þarna þrátt fyrir það sem verið er að gera. Það er áhugavert að vita hvort verið er að ræða eitthvað annað.

Ég veit að hér kemur fram að það á að leggja í rannsóknir og reyna að skoða þetta enn frekar, eins og kemur fram á bls. 29, en ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að staldra við.

Varðandi flugið þá tek ég líka undir það að ég hefði viljað sjá, úr niðurstöðu þverpólitískrar nefndar varðandi flugvellina, að því væri fylgt eftir með fjármagni. Ég held að við höfum fleiri treyst á það, þar sem það er augljóst — í textanum segir að jafnvel megi búast við lokun lendingarstaða sem eru með og án áætlunarflugs á allnokkrum stöðum komi ekki auknar fjárveitingar á síðari hluta tímabilsins. Ég held að við verðum að vera mjög meðvituð um að þetta er ekki áætlun sem ég kem til með að geta séð óbreytta hvað þetta varðar. Svo kemur líka fram að bjóða eigi út — væntanlega held ég að hafi staðið, ég man ekki hvar það er nákvæmlega — óarðbæru leiðirnar eins og við köllum það. Kannski fer ráðherra aðeins yfir það, hvort það er ekki alveg á hreinu að það verði gert, að farið verði í útboð á þessu ári á þeim leiðum. (Gripið fram í.) Hvað segirðu? (Gripið fram í.) Já, Gjögur og það allt saman.

Mér finnst það skipta miklu máli og ég held að við séum líka sammála því en þá kemur að því að ef vellirnir eru ekki í ástandi til að hægt sé að sinna flugi þá er kannski til lítils að bjóða það út. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hugum að því að fylgja þessu eftir. Það á reyndar að ljúka við á Gjögri en ég veit ekki nákvæmlega með stöðuna á öðrum flugvöllum.

Þetta er það helsta sem mig langaði að ræða. Ég tek undir það sem sagt var um ástand á tengivegum og mörgu öðru sem hér hefur komið fram, þetta er eitthvað sem við landsbyggðarþingmenn og fjárlaganefndarfólk heyrum mjög mikið. Þetta er það sem helst brennur á fólki í hinum dreifðu sveitarfélögum. Fyrst og fremst mundi ég líka vilja fá að vita viðhorf ráðherrans gagnvart þessari endurgreiðslu á mörkuðu tekjunum, að Vegagerðin sé enn látin greiða til baka af þessum fyrir fram greiddu, mörkuðu tekjum sem eru færðar sem skuldir.