144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vildi ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja fram samgönguáætlun. Ég fagna því að hún er komin fram. Það blasir við að þegar margar framkvæmdir hafa beðið lengi þá er ekki hægt að gera allt í einu, maður verður að sætta sig við það. Það er mjög margt gott að sjá í þessari áætlun, þar á meðal gleðst ég yfir því að Hellisheiði er komin fremst á dagskrá og vegurinn milli Selfoss og Hveragerðis. Ég gleðst líka yfir því að Dýrafjarðargöng eru komin á áætlun og frumathuganir á Seyðisfjarðargöngum. Það eru ýmis mál víða um land sem er vert að gleðjast yfir.

Ég er mjög ánægður yfir því að 200 milljónum á ári verði varið í að bæta umferðarflæði og almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé mikið þarfaverk. Ég fagna því einnig að það skuli vera á dagskrá að athuga kosti þess að hafa Sundabraut í einkaframkvæmd. Sundabraut er mjög mikilvæg fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Það gleður mig einnig innilega sem þingmann Suðvesturkjördæmis að Arnarnesvegur frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi verði gerður á árunum 2015 og 2016. Allt er þetta til bóta og því ber að fagna.

Það er eitt atriði sem ég hef áhyggjur af í þessari samgönguáætlun. Mig langar að skora á hæstv. ráðherra og hv. umhverfis- og samgöngunefnd að taka til endurskoðunar að fyrst árið 2018 verði hafnar framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi suður í Hvalfjarðarhraun og gerð vegamót við Krýsuvíkurveg. Ríkisstjórnin hefur sett 1.800 milljónir á þessu ári í vegi sem eru sérstaklega tilgreindir ferðamannavegir. Þess vegna finnst mér skjóta skökku við að menn leggi ekki meiri áherslu á að vinda sér í að klára tvöföldun mesta ferðamannavegar á Íslandi, þess vegar sem allflestir ferðamenn sem koma til Íslands eiga leið um, þ.e. Reykjanesbrautar, að það skuli ekki vera gert. Ég veit að bæjarstjórnin í Hafnarfirði hefur gríðarlegar áhyggjur af núverandi tengingu Reykjanesbrautar við Krýsuvíkurveg.

Svo vill til að ég fékk tölvupóst í hendur í gær þar sem er einmitt rætt um þann milljarð sem á að nota í Reykjanesbraut árið 2018. Þennan milljarð hefði ég gjarnan viljað að menn færðu fram í tíma vegna þess að byggð á Ásvöllum þéttist sífellt, á Völlunum í Hafnarfirði, og einnig er þar mikil atvinnustarfsemi. Það er til mikils vansa að þar eru stórhættuleg gatnamót inn á iðnaðarsvæðið að Krýsuvíkurvegi. Þarna eiga ferð um á hverjum degi margir stórir vöruflutningabílar sem eru seinir í svifum. Maður hefur haft áhyggjur af því mjög lengi að slys verði þar sem ekið er inn á einföld T-gatnamót inn í iðnaðarhverfið við Hellnahraun. Vöruflutningabílar sem aka frá austri með vinstri beygju inn í hverfið og til vesturs út úr hverfinu eru svifaseinir og keyra í veg fyrir mjög hraða umferð á Reykjanesbrautinni.

Það er líka hægt að minnast á að í nágrenninu í sama hverfi eru Flugleiðir, eða Icelandair, að byggja upp mjög stóra starfsstöð þar sem munu væntanlega starfa nokkur hundruð manns. Umferð út af þeirri starfsstöð verður mikil. Þetta er mikið áhyggjuefni. Því vil ég nota þetta tækifæri og skora á hæstv. ráðherra og hv. umhverfis- og samgöngunefnd að þær þúsund milljónir sem ætlaðar eru til að bæta Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar árin 2018 og síðar verði færðar fram í tíma þannig að hægt verði að vinda sér í þessa framkvæmd, ef ekki á þessu ári, 2015, þá strax á næsta ári, 2016. Ég held að við getum ekki beðið eftir því að þarna verði einhver óhöpp eða stórslys sem hægt er að forðast.

Í þessari samgönguáætlun finnst mér einmitt svo mikil áhersla lögð á vegarkafla þar sem öryggi þarf að bæta. Það er mjög margt í þessari áætlun sem horfir til þess að bæta öryggi víða. Þess vegna finnst mér skjóta skökku við, eins og ég sagði, að það sem blasir við öllum að verður að gera skuli ekki vera fært fram í tíma.

Það er talað um að núna á þessu ári og næsta og jafnvel þarnæsta verði enn 15–20% aukning ferðamanna á hverju ári. 95% af þeim fara þessa leið, annaðhvort í hópferðabílum eða á bílaleigubílum, þannig að umferð mun þyngjast frá því sem nú er. Það er ekki eftir neinu að bíða að fara í þessa framkvæmd.

Ég vona svo sannarlega að hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hæstv. ráðherra taki þessi orð mín alvarlega og leitað verði leiða til þess að hægt verði að vinna þetta mál hraðar og öruggar.

Að öðru leyti endurtek ég ánægju mína með þessa áætlun. Hún ber þess vitni að það er verið að auka í í fyrsta skipti í dálítið langan tíma. Það þýðir að það þarf að smyrja peningana þunnt út. Það eru víða verkefni sem eru brýn og þarf að ráðast í.

Ég vil líka í þessu sambandi lýsa áhyggjum mínum af framtíð Reykjavíkurflugvallar. Mér finnst sú staðan satt að segja mjög alvarleg að flugvöllurinn eigi í raun og veru fyrir sér að leggjast af á næstu níu til tíu árum. Mér finnst það enn alvarlegra vegna þess að við ætlum að byggja hátæknisjúkrahús þarna í nágrenninu vegna þess að flugvöllurinn er þarna. Ég velti því fyrir mér með hryllingi hvernig í ósköpunum við eigum að geta réttlætt þá framkvæmd ef svo fer sem nú blasir við að flugvöllurinn verði ekki þarna að níu til tíu árum liðnum.

Það er ýmislegt sem fylgir þessari samgönguáætlun sem vert er að fara gaumgæfilega ofan í. Ég treysti hv. umhverfis- og samgöngunefnd sannarlega til þess og hennar góða formanni, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni. Ég vænti þess að vinna hennar við að fara yfir þessa áætlun og skila henni aftur inn til þingsins gangi vel. Ég þakka fyrir þetta.