144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú hefur oft verið til umfjöllunar hvernig mögulegt sé að komast inn í þessa grein, inn í fiskveiðistjórnarkerfið, fyrir nýliða, fyrir þá sem ekki hafa fullar hendur fjár eða greitt aðgengi að fjármálastofnunum og geta veðsett. Ég spyr hvort hv. þingmanni þyki strandveiðarnar vera leið til að hafa möguleika á að stækka og eflast. Þá horfi ég til þess að strandveiðarnar eru oft ekki eingöngu það sem þeir sem eiga bát gera út á, heldur eru bátar oft með lítinn kvóta og geta róið eitthvað yfir veturinn en hafa þennan möguleika að róa yfir sumarið. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji að þetta sé opnun inn í greinina og greinin geti þá eflst ef aukið er við strandveiðar eða hvort hann sjái aðra leið.

Í umræðunni er oft sagt að allir geti byrjað í kerfinu í dag. En ef þú kaupir um 10 tonn af þorski til að geta farið að róa og bát að auki — miðað við að kílóið kosti um það bil 2.500 kr. væru 10 tonn af varanlegum þorski 25 milljónir og að auki verð á bát. Þá ertu kannski kominn upp í 50 milljónir til að starta og 10 tonn duga ansi skammt til að hafa lífsviðurværi af allt árið. Mig langar að heyra aðeins viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessum möguleikum til nýliðunar og hvort hægt sé að bæta það sem verið er að skipta þarna til annarra aðgerða en að deila út til þeirra sem hafa kvóta í dag.