144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef ekkert á móti einkarekstri eða því þegar fólk bjargar sér svona eins og mér fannst hv. þingmaður vera að lýsa, með því að gera út bát á strandveiðar og komast þannig af. Ég er á því að í atvinnulífinu eigum við að hafa sem flest blóm sem blómstra.

Þess vegna finnst mér hugsunin, eins og virðist vera, á bak við strandveiðarnar, mér finnst hún flott. En við þurfum hins vegar að taka vara á því að þá verður það einfaldlega að vera þannig að þeir sem gera út á strandveiðarnar að þeir séu þá sáttir við það að þeir hafi ekki meira upp úr því en raun ber vitni, og kannski er það nóg. Þá er það alveg gott og blessað. Við verðum að vara okkur á því að þegar við erum með svona mismunandi rekstur þá eigum við að leyfa því að blómstra hverju á sinn hátt en líka gæta þess að fara ekki að greiða of mikið með annarri tegundinni. Kannski viljum við gera það, kannski viljum við greiða eitthvað með, en við verðum að vita að við séum að því.

Ég held að allir, líka þeir sem gera út á strandveiðar, ættu að vita hvað þeir þurfa að greiða fyrir fiskinn upp úr sjó, og það sé betra en að við séum að ákveða veiðigjald hér á Alþingi og þess vegna tel ég að það ætti bjóða aflann upp á markaði.