144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mig langar að fara aðeins út í það sem hér er talað um, þ.e. byggðafestuáhrif vegna byggðakvótans og millifærslu úr þessum almenna byggðakvóta og yfir í þann sértæka hjá Byggðastofnun, að það skipti máli.

Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram tillögu um aukna byggðafestu veiðiheimilda og ég styð það sem fram kemur í frumvarpinu og varðar það að til þess gæti komið. Vegna afleiðinga kvótakerfisins eru mörg sjávarþorp því miður ekki nógu vel stödd.

Mig langar til að velta tvennu upp hér með hv. þingmanni sem kemur fram í lið 11 og fjallar um tekjur sem fást við sölu aflaheimilda. Ég spyr hvort hann gæti séð það fyrir sér að þær tekjur mætti nýta til byggðatengdra verkefna, til að fjölga stoðum á litlum stöðum og styrkja byggðirnar að öðru leyti en eingöngu í gegnum fiskinn. Ég spyr hvort hann gæti séð það fyrir sér að það gæti farið í gegnum sóknaráætlanir eða einhverja aðra leið þannig að byggðirnar sjái fyrir sér tilteknar fjárhæðir til lengri tíma.

Það er tvennt til viðbótar sem ég vil nefna. Annars vegar eru ekki neinir útreikningar um það hve mikla fjármuni gæti verið um að ræða en í lið 11 í frumvarpinu er bara talað um þessi byggðatengdu verkefni samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Þar kemur ekkert fram um það hvernig það verður gert. Ráðherra er algerlega í sjálfsvald sett að gera það. Ég spyr þingmanninn hvort hann telji að það sé ásættanlegt. Í annan stað spyr ég hvort hann telji að þetta séu tekjur sem þyrftu að koma fram, krónur og aurar svona um það bil, með einhverjum frávikum, og hvort við ættum að nýta þetta í gegnum sóknaráætlanir.