144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um að það sé í samræmi við stjórnarskrána að veita þessa heimild. Ég segi nú eins og lögfræðingurinn hv. þm. Brynjar Níelsson — ég man nú ekki hvernig lögfræðingar taka til orða en þeir segja eitthvað á þessa leið: … nema annars sé getið í lögum. Að ráðherrann beri ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum — jú, auðvitað gerir hann það, en svo er fullt af lögum þar sem ráðherranum eru í raun og veru settar starfsreglur um hvernig hann eða hún eigi að gera hitt og þetta. Ég tel að það eigi ekki að kveða sérstaklega á um það í lögum að ráðherra ákveði þetta einn og sér. Ég mundi frekar vilja að Alþingi ákvæði hvar stofnanir væru settar niður.

Af því að hv. þingmaður segir að auðvitað verði ráðherrann að fara eftir öllum lögum og reglum, stjórnsýslulögum, starfsmannalögum og hvað þau heita öllsömul, þá sjáum við angistina sem fólk sem vinnur hjá Fiskistofu hefur verið í undanfarna mánuði. Við sjáum hvað gerist þegar menn gæta sín ekki í nærveru sálar heldur ana bara áfram og segja: Nú skalt þú tekinn upp á eyrunum og fluttur með allt þitt hafurstask landshorna á milli. Það hefur mikil áhrif á fólk og er stóralvarlegt mál. Ég tel að reynslan þennan vetur sýni að ákvæði af þessu tagi eigi alls ekki heima í lögum, heldur eigi Alþingi að ákveða þetta.