144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að beina annarri spurningu til hv. þingmanns þar sem hún á sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það segir í áliti meiri hlutans varðandi skráningu upplýsinga að á fundum nefndarinnar hafi verið fjallað um 4. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til sú breyting á 11. gr. laganna um að í stað þess að kveða á um skyldu til þess að halda skrá um formleg samskipti og fundi þá verði vísað til mikilvægra funda og samskipta og að fyrir nefndinni hafi komið fram að nokkurt misræmi væri í framkvæmd á skráningu upplýsinga og að þarna þyrfti samræmingar við. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar, sem hv. þingmaður tilheyrir ekki, til breytingu, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hún á sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort hún telji þessa breytingu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til til bóta fyrir málið.