144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ef ég hef skilið hann rétt þá sér hann það fyrir sér að hægt sé að flytja einhverjar stofnanir án aðkomu þingsins. Mér finnst í sjálfu sér í ljósi þeirrar stöðu sem hefur komið upp, m.a. með Landmælingum og núna áætluðum flutningi Fiskistofu, eiginlega ekkert benda til að þetta hafi tekist svo vel að ástæða sé til að ætla að það muni takast betur í framtíðinni.

Þetta snýr kannski að því sem ég kom ekki inn á í ræðu minni, þ.e. starfsmönnunum. Þetta er auðvitað ekki bara hús, tæki og tól, þetta er fólk, þannig að varðandi sveigjanleika til að ná markmiðum sínum hjá hverri ríkisstjórn þá er alltaf pólitískur svipur yfir því og endar kannski alltaf með pólitískum svip, en það sé að minnsta kosti þannig að við tækjum umræðu um það á þingi og ræddum kosti og galla þess að framkvæma slíkt í staðinn fyrir að þetta væri eingöngu ákvörðun einhvers eins ráðherra, hver svo sem hann er. Ég sé það alla vega ekki fyrir mér að ég mundi vilja hafa einhvern sveigjanleika í því að ráðherra gæti flutt ríkisstofnun — ég veit ekki, hvað þarf stofnun að vera stór til að við teljum það vera stofnun á vegum ríkisins? Er það einn starfsmaður eða fimm eða hvað? Það má vel vera að fólk vilji draga einhvers staðar mörkin. En mér finnst að prinsippið eigi að vera það að við ræðum slíkt á þingi og tökum um það sameiginlega ákvörðun með efnislegri umfjöllun þar sem allir hlutir koma fram.