144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óhætt að upplýsa hv. þingmann um það að þau atriði sem þingmaðurinn spyr um voru rædd óverulega í nefndinni og ég held að þær ábendingar sem þingmaðurinn hafi um þetta efni séu allrar athygli verðar og fari svo að 2. umr. ljúki með því að málið gangi áfram í þinginu, þá væri einkar vel til fundið að kalla það inn til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. og fara þar yfir þessi sjónarmið og aðra hluti sem ég nefndi í ræðu minni og lúta að samskiptum ráðherrans við umboðsmann og aðra slíka þætti.

Gagnsæi er gríðarlega mikilvægt meðal annars fyrir þá hluti sem hv. þingmaður nefndi en auðvitað ekki síður í litlu samfélagi eins og okkar þar sem nándin er mikil og aðhaldið með stjórnvöldum, hvort sem er framkvæmdarvaldinu eða þinginu, verður kannski takmarkað veitt með reglum en getur að verulegu leyti orðið til með gagnsæi og með því að menn þurfi að gera hlutina fyrir opnum tjöldum.