144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru einmitt slíkar hugsanir sem sækja á mann þessa dagana, hversu lengi þetta sé hægt, það ástand sem nú varir. Það ástand er sannarlega ekki einungis fyrir hendi hér inni í þingsölum heldur í öllu samfélaginu og Framsóknarflokkurinn og forusta hans sýna það náttúrlega að flokkurinn ræður engan veginn við að vera í forustu og er á köflum ekki stjórntækur, það er bara veruleikinn.

Mig langar að spyrja vegna þessara steðja sem koma upp í pólitík hæstv. forsætisráðherra, þ.e. hin mikla valdapólitík og mikla þörf fyrir að kalla völdin til sín, sama hvort það varðar sögulega byggð, þessar ákvarðanir eða aðrar, forsætisráðherra sem hefur einmitt komist svo að orði sem hv. þingmaður nefndi áðan, að tala í fullri alvöru og í þingræðu um réttar og rangar skoðanir — um réttar og rangar skoðanir — hvort ráðlegt sé í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra, sá hinn sami og hélt ræðuna um réttar skoðanir og rangar, fari með allt utanumhald að því er varðar siðferðileg viðmið. Er það vænlegt til árangurs, horft á það viðfangsefni út frá almennum hugmyndum um siðferði, þegar menn eru haldnir þeirri skoðun að skoðanir geti verið rangar og réttar, í einhverjum skilningi vondar og góðar? Ég vil biðja hv. þingmann um að varpa ljósi á afstöðu sína til þeirrar spurningar.

Framsóknarflokkurinn hefur farið mikinn í ati sínu gegn höfuðborgarsvæðinu og gegn Reykjavíkurborg og hefur látið eins og það séu tilteknir pólar í pólitík, annars vegar höfuðborgarsvæðið eða þéttbýlið hér og hins vegar landsbyggðin, (Forseti hringir.) og mál hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar sem var tekið út úr nefnd í gær og varðaði Reykjavíkurflugvöll (Forseti hringir.) er grein af þeim meiði. Ég vil biðja hv. þingmann að velta vöngum um það í þessu samhengi.