144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:01]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost fyrir tveim kvöldum, á mánudagskvöldið, að sitja opnunarhátíð Smáþjóðaleikanna í Laugardalshöll. Ég var verulega stoltur af því að sjá hvernig til tókst. Ég var stoltur af því hvernig íslensk íþróttahreyfing stóð að málum, hvernig íþróttafólk frá níu þjóðum gekk til smáþjóðaleika í Laugardalshöll.

Við eigum kannski ekki glæsilegustu íþróttaaðstöðu í veröldinni, en íþróttaaðstaðan í Laugardal gagnast nokkuð vel og Laugardalshöll var skreytt. Þarna gengu hópar upp á svið og allir fögnuðu. Ég vona að þátttakendur á þessari miklu íþróttahátíð hugsi til kjörorðs ólympíuhreyfingarinnar, þeir leiti hærra, fari hraðar og verði sterkari. Á latínu, með leyfi forseta, leyfi ég mér að segja: citius, altius, fortius.

Ég ætla líka að segja hér í lok máls míns að ég hugsaði með skelfingu til þess ef þessi hátíð hefði nú farið í vaskinn vegna verkfalla eins og horfur voru á um tíma. Ég held að þátttaka ungs fólks í íþróttum geri það að betra fólki. Gangi ykkur vel. Takk fyrir.