144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er önnur grein sem líka hefur verið rætt mikið um og snýr að hreyfanleika starfsfólks innan stjórnsýslunnar, þetta er 10. gr., b-liður. Ég get séð rök fyrir því, það getur aukið hagkvæmni, bætt nýtingu á starfsfólkinu og aukið sveigjanleika. Kannski er þá einnig hægt að færa starfsfólk til þannig að áhugi þess, sérfræðiþekking og reynsla nýtist betur. Það getur jafnvel verið tækifæri fyrir starfsfólk til að takast á við önnur verkefni og öðlast meiri reynslu. Það segir í greinargerðinni að breytingin sem gerð var árið 2011, að færa fólk á milli innan Stjórnarráðsins, hafi reynst vel en það kemur í rauninni ekkert fram hvort þetta hafi verið mikið notað og það er enginn rökstuðningur.

Þarna er verið að tala um að geta jafnvel fært fólk úr ráðuneytum og í stofnanir. Aðalrökin á móti því eru, mundi maður halda, að verið sé að víkja frá þeirri meginreglu að auglýsa eigi störf og eins að það geti verið að starfsfólk verði sett í óheppilega stöðu ef það hefur ekki áhuga á að flytja sig um set. Ég var að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti farið aðeins betur í þetta og hvort hann tekur undir það með mér að það eru ýmsir kostir við að auka þennan sveigjanleika. Kannski er áhyggjuefnið, eins og kom fram í meðförum nefndarinnar, að ekki virðist hafa verið haft mikið samráð við þau stéttarfélög sem hlut eiga að máli eða starfsfólkið. Það er auðvitað mikilvægt þegar verið er að gera slíkar breytingar að það sé gert. En þetta getur líka verið tækifæri fyrir starfsfólk, mundi maður halda.