144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg prýðilega ræðu, hann setti efni þessa frumvarps í breytt samhengi sem var áhugavert.

Það er rétt að Alþingi hefur mikil völd og væru þau á hendi eins manns en ekki dreift á 63 væri mikið vald þar saman komið. Vandinn er náttúrlega sá að stundum hefur stappað nærri því að þetta vald, sem á að vera dreift á 63 einstaklinga og marga flokka og fulltrúa ólíkra sjónarmiða, hefur í reynd — hið raunverulega vald, valdið de facto — verið nánast í höndum eins manns. Það er til dæmis á tímum þegar við höfum haft yfirgangssama og ráðríka forsætisráðherra sem hafa haft sterk tök á þeim meiri hluta sem þeir studdust við á þingi og hann hefur hlýtt þeim í einu og öllu. Ég er ekki frá því að það glitti í löngun að minnsta kosti hjá núverandi hæstv. forsætisráðherra til að hafa þetta svona. Ég held að hann sé að vísu ekki bógur til þess að taka sér jafnrík völd og sumir ónefndir forsætisráðherrar gerðu á sínum velmektardögum.

En takandi það í stærra samhengi þá er þetta spurningin um hvernig lýðræðið er raunverulega tryggt. Stundum er sagt að það felist einmitt í því að dreifa valdinu og afmarka valdþættina í samfélaginu og kannski fyrst og síðast í því að gleyma aldrei hvaðan valdið sprettur eða á að spretta, frá fólki. Það er spurning hvort núverandi ríkisstjórn er líka að einhverju leyti að gleyma því.

Svo í öðru lagi, af því að hv. þingmaður ræddi skemmtilega það sjónarmið, sem að sjálfsögðu er gilt inn í þessa umræðu, að það er líka mikilvægt að hafa öfluga höfuðborg. Það getur verið hagkvæmt að hafa öfluga og vel skipulagða æðstu stjórnsýslu á einum stað. En það breytir ekki hinu að það er eðlilegt sjónarmið frá augum annarra landshluta að opinberri þjónustu sé dreift og hún sé sem næst þeim sem njóta hennar. Það breytir heldur ekki hinu að ýmis umsvif ríkisins og starfsemi geta vel verið staðsett og vel um þau búið annars staðar en hér á suðausturhorninu, til dæmis stofnanir sem menn þurfa ekkert mikið að leita til dags daglega fýsískt með erindi sín.