144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össur Skarphéðinssyni fyrir þessar athugasemdir. Ég get nefnt fleiri vel heppnuð dæmi. Ég get nefnt Umhverfisstofnun þar sem störf án staðsetningar hafa verið auglýst og ríkt hefur ánægja með það ferli. Þetta mætti hugsa sér í fleiri tilvikum. Ég ítreka það hins vegar að sum starfsemi er þess eðlis að hana er erfitt að flytja eða sameina. Ég nefni sem dæmi skólastofnanir sem skiptir mjög miklu máli að hafa á staðnum, skólarnir eru oft hjarta hvers samfélags og þar getur orðið mjög erfitt um vik þegar ráðist er í sameiningar á stórum landsvæðum á skólastofnunum þar sem faglegir leiðtogar hverfa úr heimabyggð og annað slíkt. Ég held að þarna verði auðvitað að horfa á eðli starfseminnar í hverju tilviki.

Ég tek hins vegar hjartanlega undir með hv. þingmanni varðandi þennan skilning á lýðræðinu. Það er okkur sem störfum í stjórnmálum ákveðið áhyggjuefni ef menn telja að lýðræðið snúist bara fyrst og fremst um að greiða atkvæði og niðurstaðan sé sú að ef fleiri velja einn kost umfram annan þá sé sá kostur sá rétti og ekki unnt að ræða hann.

Ég man eftir því þegar ég var fyrst að tala fyrir því á síðasta kjörtímabili að lýðræðismenntun yrði innleidd í námskrár og var þá spurð á einum fundi: Ertu að segja það að ef nemendur kjósa, ef meiri hluti nemenda kýs að tveir plús tveir séu fimm þá séu tveir plús tveir bara hættir að vera fjórir? Þetta er ekki góður skilningur á lýðræði. Lýðræðið hlýtur alltaf að snúast um samtalið. Mín uppáhaldstilvitnun er reyndar í John Stuart Mill sem sagði: Það er svo mikilvægt að skoðanir takist á því jafnvel þó einhver sé með ranga skoðun þá getur bara samtal þessara tveggja skoðana orðið til þess að við færumst nær samningaleið.

Um það á Alþingi Íslendinga að vera, það á að vera ákveðin málstofa. Þess vegna sakna ég þess hve lítið heyrist frá fulltrúum meiri hlutans í þessari aðalumræðu um málið.