144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Varðandi Framsóknarflokkinn sem hér var nefndur fyrr á nafn — ef maður leggst í smásálgreiningu á honum þá er ekki hægt að neita því að það ber dálítið á því núna, sérstaklega finnst mér á þessum vetri eða þessu vori, að Framsókn er komin í gamalt far. Við sem þekkjum Framsókn af langri sambúð við þekkjum þá Framsókn, þegar hún er komin út í það að vera með ýmsa hluti til heimabrúks sem mælast kannski vel fyrir í héraði — eða þeir halda að mælist vel fyrir í héraði, en eru ekki endilega alltaf mjög skynsamlegir og byggja ekki á mikilli heildarsýn. Við getum tekið þetta sprikl í ónefndum hv. þingmanni með skipulagsmál á flugvöllum, gjörsamlega glataður málatilbúnaður frá byrjun og andvana fæddur. En þingmaðurinn ímyndar sér sennilega, eða hefur haldið, að þetta mundi mælast vel fyrir á ákveðnum slóðum, það læt ég mér detta í hug. Flokkur sem er búinn að tapa miklu af fylgi sínu og virðist ekki ríða feitum hesti frá mælingum á fylgi, til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu, hann er þá að reyna að halda því uppi einhvers staðar annars staðar með einhverju slíku. En það er auðvitað ekki stjórnsýsla sem við viljum sjá.

Varðandi nálægðarregluna og ákvarðanatöku — það er alveg hárrétt, auðvitað skiptir svo margt fleira máli í þessum efnum en bara hvar starfsemi hins opinbera er, störfin og umsvifin. Það skiptir miklu máli hvar fjármunirnir eru og hvar valdið yfir þeim er. Ég hef auðvitað sagt inn í þetta samhengi að ég held að áframhaldandi verkefnaflutningur til sveitarfélaga eða út á landsvæðin með fjármuni, og með valdið sem síðan fylgir því að fara með þá fjármuni og ákveða forgangsröðun þeirra o.s.frv., sé virk byggðastefna, mjög góð, og við eigum að gera það. Sóknaráætlanirnar voru nákvæmlega þessi hugmyndafræði og þess vegna sorglegt að þær skyldu vera jafn grátt leiknar af núverandi ríkisstjórn og raun ber vitni.

Þegar við komum hins vegar að samgöngumálunum eða vegamálunum — jú, jú, það getur vel (Forseti hringir.) komið til greina að auka sjálfræði manna að einhverju leyti í forgangsröðun á svæðunum, en við þurfum líka heildarplan af því að þetta er eitt samgöngukerfi fyrir allt landið, það yrði einhvern veginn að blandast saman.