144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Verkföll grafa undan öryggi og lífsgæðum deilenda en jafnframt samfélaginu í heild. Verkföll eru í raun lögbundin heimild til þess að valda þriðja aðila skaða. Þegar slík heimild er til staðar er mikilvægt að líka sé til staðar ferli sem minnkar líkurnar á því að til verkfalla komi, þannig að hægt sé að stilla saman þessa strengi áður en til slíks þarf að koma. Því er ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson sjá þetta vandamál og tala um verkfæri til að leysa það. Hann sagði rétt áðan að vinnumarkaðsmódelið hér á landi sé að hruni komið og að við þurfum að færast í átt til norræna módelsins og það verði verkefni næstu ára.

Fyrir tveimur árum voru stóru aðilarnir á vinnumarkaði sammála um þessa norrænu nálgun. Ríkisstjórnin vann að þessu og fór og skoðaði þetta úti. Samt sem áður sýnist mér sú vinna ekki vera markviss. Ég hef ekki heyrt frá ráðherranum, verkefnisstjóranum í þessu, hvað raunverulega er í gangi til að færa okkur í þessa átt. Hvað er langt í að við sjáum svona frumvarp lagt fram á Alþingi til að ramma þessi mál inn?

Við ræddum þetta fyrir tveimur vikum, komum því ekki skýrt fram. Ég ætla aðeins að þrýsta á ráðherra og spyrja: Er ráðherra, sem er verkefnisstjóri, ekki búinn að skilgreina og skipuleggja verkefnið? Er hann ekki búinn að setja niður tímaramma og áfanga í áttina að því að frumvarp verði tilbúið? Hvað er þá langt í þessa löggjöf eða þetta frumvarp frá ráðherra hingað inn á þingið? Þetta eru eðlilegar spurningar til verkefnisstjóra og ég vona að ráðherra taki þeim vel.