144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og vangavelturnar. Ef við meinum eitthvað með því að vilja dreifa störfum betur um landið og vera á sama tíma með öfluga og vel rekna stjórnsýslu þá held ég að menn þurfi að skoða þetta heildstætt. Þess vegna ræddi ég það hér áðan í andsvari að mögulega ættum við að vera með öfluga starfsmannaskrifstofu sem gæti haldið utan um slíkt bókhald, ef svo má kalla, og gæti ráðlagt stjórnsýslunni hvernig best sé að bregðast við ef við sjáum kannski að mikið af störfum sé að óþörfu að flytjast af landsbyggðinni í bæinn og menn gætu verið að reka stofnanir með öðrum hætti.

Ég held líka að það sé kannski komið að ákveðnum tímapunkti. Við stjórnmálamenn höfum svo oft sagt þetta. Við segjum öll: Ja, heyrðu við viljum fjölga opinberum störfum úti á landi eftir því sem hægt er. Og svo taka menn ákvarðanir eins og með Fiskistofu sem ég tel að hafi verið kolröng nálgun. Við tökum aldrei heildstætt á þessu. Kannski ættum við að gera það í eitt skipti fyrir öll, hreinlega setjast niður, kortleggja þessar stofnanir, hvar starfsmennirnir eru, og skoða það fyrir alvöru, út frá markmiðum hverrar stofnunar fyrir sig, hvort hægt sé að gera betur og hvort hægt sé að breyta staðsetningu viðkomandi stofnunar. Svo finnst mér að við ættum líka í því samhengi að velta því fyrir okkur hvort við ættum almennt að taka upp vinnulag Umhverfisstofnunar, sem ég fór yfir í minni ræðu, þar sem það er algerlega opið á hvaða starfsstöð starfsmaðurinn vinnur þegar hann er ráðinn inn til Umhverfisstofnunar.

Við erum með starfsemi hins opinbera út um allt land. Það er mjög auðvelt og gott aðgengi að stofnunum hins opinbera eða útibúum þar sem starfsmenn geta fengið aðstöðu og þannig ýtt undir þessi störf án staðsetningar. (Forseti hringir.) Ég hvet til þess að við setjumst í sameiningu niður, (Forseti hringir.) skoðum heildarmyndina og tökum svo ákvörðun.