144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Stattu með taugakerfinu er átak sem gengur út á að koma taugakerfinu inn sem sjálfstæðu þróunarmarkmiði hjá Sameinuðu þjóðunum. Á 15 ára fresti setja Sameinuðu þjóðirnar ný þróunarmarkmið. Það gerðist síðast árið 2000 og það mun gerast að nýju í september á þessu ári. Að fá taugakerfið sem þróunarmarkmið mundi varpa alþjóðaathygli á vandann og auka fjármagn til vísindasviðsins í kjölfarið.

Stjórnvöld hafa undanfarið unnið að málinu á vettvangi hinnar sameinuðu þjóða, en róðurinn er þungur. Það gæti gert gæfumuninn ef hægt væri að beita sér á þeim forsendum að íslenska þjóðin geri ríkar kröfur til þess að þjóðir heims hrindi úr vör alþjóðlegu átaki til aukins skilnings á virkni taugakerfisins.

Í föstudagsblaði Fréttablaðsins er afar áhugavert viðtal við ungan mann, Pétur Kristján Guðmundsson, sem slasaðist illa. Hann tók það ekki í mál að hann yrði bundinn við hjólastól um aldur og ævi. Hann er sá eini í sögu Grensásdeildar með alvarlegan mænuskaða sem staðið hefur upp úr hjólastólnum. Hann segir sögu sína og frá þeim undraverða og ánægjulega árangri sem hann hefur náð. Saga hans hefur gefið mörgum von og minnir okkur enn og aftur á mikilvægi þess að við stöndum með taugakerfinu.

Einnig er vert að vekja athygli á því að fyrir ári samþykkti þingheimur þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu lækninga við mænuskaða sem sýnir að við sem hér störfum og stjórnvöld á Íslandi vilja standa með verkefninu. En oft er það grasrótin sem nær lengst. Við Íslendingar þurfum að standa með taugakerfinu og gera þar með mannkyninu mikinn greiða. Ég skora því á alla að fara inn á síðu átaksins, Stattu með taugakerfinu og skrifa undir. Gefum einstaklingum sem hafa verið í sömu aðstöðu og Pétur von um bata.