144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hér upp undir störfum þingsins vegna þess að þau ánægjulegu tíðindi urðu í morgun í fjárlaganefnd að nálega sex ára vinnu er nú lokið, vinnu sem snýr að uppstokkun og endurnýjun á lögum um opinber fjármál. Þetta mál var búið að vera í vinnslu fyrri ríkisstjórnar hátt í fjögur ár og svo þegar kosningar gengu í garð árið 2013 og ný ríkisstjórn tók við völdum fór hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson í þetta mál og lagði fram í sínu nafni á haustdögum 2013.

Sú fjárlaganefnd sem nú starfar hefur haft málið til umfjöllunar í bráðum tæp tvö ár, fengið til sín erlenda og íslenska gesti og umsagnaraðila, unnið það í mjög góðri sátt allra flokka sem í fjárlaganefnd eru og þakka ég nefndarmönnum í fjárlaganefnd kærlega fyrir gott samstarf og vinnu, því það er ekki hægt að segja annað en vinnan hafi gengið mjög vel. Hún hefur einungis verið á faglegum nótum, pólitík skilin eftir fyrir utan dyrnar hjá fjárlaganefnd, þannig að mjög góð niðurstaða og samstaða hefur náðst í málinu og tekið tillit til allra sjónarmiða og það unnið fyrst og fremst á faglegum nótum en ekki pólitískum.

Það er því leiðinlegt að segja frá því, virðulegi forseti, að þetta mál breyttist í pólitískt mál í morgun því minni hluti fjárlaganefndar í heilu lagi sá sér ekki fært að vera á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Því tilkynni ég þingheimi að frumvarp um opinber fjármál kemur til umræðu í þinginu með tveimur nefndarálitum og er það mjög bagalegt miðað við hvað starfið hefur verið farsælt alveg þar til í dag.