144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við mættum nú öll hlusta á þá brýningu hv. þingmanns sem hér talaði á undan.

Ég ætla ekki fara að leiðrétta allt það sem hér hefur komið fram sem er ekki alveg rétt, en þó verð ég að segja, svo það sé alveg skýrt, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið með frumvarp til að tryggja bónusa. Því miður er það þannig að bónusar í fjármálafyrirtækjum tíðkast eins og menn þekkja. Menn geta haft allar skoðanir á ýmsum frumvörpum, en það er ekki verið að tryggja bónusa.

Ég vil taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem nefndi það að búið er loksins að taka út úr hv. fjárlaganefnd frumvarp um opinber fjármál sem hefur verið í vinnslu í mörg ár hjá mörgum ráðherrum og þá sérstaklega síðustu tvö árin. Haldnir hafa verið 25 fundir í hv. fjárlaganefnd þar sem farið hefur verið yfir málið á þessu ári og fimm fundir á síðasta vetri. Búið er að fara í tvær utanlandsferðir til að kynna okkur þau mál sem þarna eru á ferðinni, bæði núverandi hv. fjárlaganefnd og líka síðasta hv. fjárlaganefnd. Farið var til Svíþjóðar til að kanna það hvernig málum er háttað þar og í rauninni má segja að sænska módelið sé sú fyrirmynd sem hér er lagt upp með. Kallaðir hafa verið til sérfræðingar, sérstaklega frá AGS, sem komið hafa með sínar athugasemdir og tillögur. Sem betur fer hefur verið efnislega góð samstaða um málið í nefndinni.

En stóra málið er að þetta er ekki bara það sem snýr að því sem er samþykkt í lögunum. Ef við ættum að ná því markmiði sem stefnt er að í lögunum þá þýðir það það að við þyrftum að vera með breytt verklag og breytta umræðu um opinber fjármál, ekki bara hér innan þings, heldur líka í fjölmiðlum. Það er bara þannig að í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þá dugar það ekki að vera með óábyrgan tillöguflutning eða óábyrgar tillögur þegar kemur að opinberum fjármálum. Þá verða viðkomandi einstaklingar (Forseti hringir.) eða stjórnmálamenn bara blásnir út af. Ég vona, virðulegi forseti, að við fáum að ræða þetta í þaula því að það er mjög (Forseti hringir.) mikilvægt.