144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

nýting tekna af stöðugleikaskatti.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum í grundvallaratriðum sammála eins og fram kom og þurfum svo sem ekkert að ræða það neitt mikið frekar. Mig langar samt að nefna að batnandi hagur ríkissjóðs á að sjálfsögðu að birtast í batnandi hag almennings í landinu. Möguleikar okkar og tækifæri til að byggja áfram upp innviðina, hvort sem er á heilbrigðis- eða menntasviðinu eða annars staðar, vaxandi geta okkar til að standa undir fjárfestingarþörf þar er ekkert annað en ánægjuefni. Vonandi tekst okkur að halda þannig á málum að það verði gert í samræmi við það að sígandi lukka er best, jafnt og þétt án þess að reyna að gera of mikið í einu skrefi, að færast of mikið í fang þannig að ríkisfjármálin spili saman við ástandið í efnahagslífinu að öðru leyti. Ef við höldum þannig á spilunum er alveg augljóst að við erum hér með mál sem er í eðli sínu ekkert nema stór tímamót, miklar gleðifréttir sem munu renna stoðum undir bættan hag almennings í landinu.