144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég hef áhyggjur af er að það eru nefnilega forsendur gefnar fyrir þeim tölum sem birtast í töflunni á fyrstu blaðsíðunni í þingsályktunartillögunni eins og þær að kjör þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur eigi ekki að þróast í takt við launaþróun. Það er hreinlega gert ráð fyrir því á bls. 65 í áætluninni. Þar er gert ráð fyrir 2% kaupmáttaraukningu á ári hjá opinberum starfsmönnum en aðeins 1% hjá þeim sem þurfa að reiða sig á bætur þannig að það er bókstaflega gert ráð fyrir því í forsendunum að það eigi að draga í sundur með þessum hópum.

Nú má vera að við tökum umræðuna og mótmælum því, en þá er spurning: Hvaðan verður tekinn peningur til að brúa þetta bil? Verður skorið niður í velferðarþjónustunni? Hvernig eigum við að taka mark á þeim tölum sem eru gefnar upp fyrir útgjöld og tekjur? Síðan stendur líka á bls. 35 mjög skýrum stöfum að verði kaupmáttur launa ríkisstarfsmanna meiri en 2% á ári út þennan áætlunartíma verði skorið niður fyrir þeim. Auk þess er gert ráð fyrir niðurskurði upp á 1% sem er 5,5 milljarðar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að þarna sé boðuð snörp niðurskurðarstefna og of margir milljarðar í niðurskurð á velferðarstoðum samfélagsins eftir að þær hafa þurft að fara í gegnum slíkt og þvílíkt á síðasta kjörtímabili eftir efnahagshrun. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér?