144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Í sjálfu sér á ég ekki von á því á lokadögum þingsins að fleiri þættir bætist við sem verða til þess að draga eitthvað til baka frá því sem við samþykktum eða synjuðum í fjárlagafrumvarpinu fyrr á þessu ári. Kannski hefur einhver umræða átt sér stað í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég veit ekki af en ég er alveg sammála því, og var einmitt að rifja það upp áðan þegar ég fór að skoða þetta mál, að fyrirkomulagið Allir vinna, þ.e. samskiptin við sveitarfélögin líka og styttingin á atvinnuleysisbótatímabilinu, hafði áhrif. Ég man ekki hvað það átti að spara, kannski í kringum milljarð, þegar farið var úr 36 í 30 mánuði. Margt annað kom þarna fram sem virðist hafa gengið eftir. Að vísu er eitt atriði sem hefur ekki gengið eftir og verður áhugavert að sjá hvort það kemur fram í fjáraukalagatillögum eða hvað á að gera varðandi þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði, það er ekki búið að taka fyrir á fundi fjárlaganefndar hvernig á að mæta því. Ég held að þar undir séu í kringum 300 milljónir, eitthvað svoleiðis. Hæstv. ráðherra hefur ekki framfylgt reglugerðinni sem átti að taka á þessu, hún er tilbúin, og ráðuneytið gat ekki annað en gert ráð fyrir tekjum af henni. Það er verið að skamma ráðuneytin fyrir að gera ekki góðar áætlanir en í rauninni hefur framkvæmdin í þessu tilfelli ekki gengið eftir. Ég er í sjálfu sér mjög sátt við það, en það þarf að finna þá peninga eða ákveða hvaðan þeir eiga að koma.