144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Þetta virkar nefnilega dálítið þannig á mig, eins og fram hefur komið áður í þessum stól og oft líka í umræðunni hér, að fyrstu tvö ár þessarar ríkisstjórnar hafi meira og minna snúist um að ef vinstri stjórnin gerði það, vonda vinstri stjórnin, ætlaði hún að taka það til baka. Menn gengu svo hart fram í því að þeir voru farnir að taka til baka það verulega góð mál að núna eru þeir farnir að sjá að sér og snúa af þeirri braut vegna þess að þeir áttuðu sig á því að í flýtinum voru menn komnir inn á alveg kolranga braut.

Þetta gerist þegar menn eru algerlega stefnulausir. Það sem einkennir störf þessarar ríkisstjórnar er að menn skoða ekki heildarmyndina, horfa ekki á stefnuna til lengri tíma heldur eru aðallega í því að gera upp við liðna tíma, þ.e. vinda ofan af gerðum fyrri ríkisstjórnar eins og það hefur verið orðað hér. Þá gerast svona hlutir, menn ana fram í því að taka til baka gjörðir fyrri ríkisstjórnar og þurfa svo að koma með skottið á milli lappanna og gera á því leiðréttingar eins og verið er að gera hér.

Mér finnst þetta dæmi vera hluti af því stóra samhengi sem við erum að fást við hér, fullkomið stefnuleysi, algjör skortur á langtímasýn og algjör skortur á heildarmynd af því sem hér er að gerast og hvert menn eru að fara í lagasetningu.

Ég held að við þurfum núna að krefjast þess af þessari ríkisstjórn að hún setji miklu skýrar fram hvað það er sem hún vill sjá gerast hér til lengri tíma. Það er ekki endalaust hægt að búa við það að menn séu eingöngu (Forseti hringir.) í slag við fráfarandi stjórnvöld. Þannig stýrir maður ekki landinu.