144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir að mér finnst nauðsynlegt að það liggi fyrir og skýrist hvað verður með breytingartillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Ég held að ég hafi setið alla, eða nánast alla fundi efnahags- og viðskiptanefndar um þetta mál. Það er búið að vera fyrirferðarmikið í vinnu nefndarinnar í vetur og við eyddum heilmiklum tíma í það fyrir 2. umr. og síðan aftur fyrir 3. umr. Ég man ekki til þess að málið fengi neina teljandi umfjöllun í nefndinni. Kannski var það einu sinni nefnt að hv. þingmaður hygðist flytja þessa breytingartillögu en ekki fóru nein skoðanaskipti eða rökræður fram um það, þannig að ég er í myrkri um hvaða afstöðu meiri hlutinn hefur til þessarar tillögu, hafi hann yfir höfuð tekið það fyrir, en ég vona hið besta.

Varðandi handvömmina eða það klúður að hlutfallstalan 7% stóð eftir í inngangsmálslið viðauka við lögin, og hefði auðvitað átt að taka breytingum í samræmi við breytingarnar sem gerðar voru á virðisaukaskatti um síðustu áramót, þá man ég ekki því miður lengur nákvæmlega hvaða stöðu það hefur. Augljóslega er þetta ekki álagningarprósentan sjálf því að hún er í lögunum sjálfum í þeirri grein sem fjallar um þrepin í virðisaukaskatti. En þetta hafði setið eftir í innangangsmálslið að viðauka og auðvitað á það ekki að vera þar, en hvort það hefur einhver teljandi réttaráhrif, hvort skapast hefur einhver óvissa um einhverja skattlagningu og hvort einhver getur haldið því fram að honum sé ekki endilega skylt að borga nema 7% í staðinn fyrir 11% á þessum tíma, frá 1. janúar og fram í júní, þori ég bara ekki alveg að segja um.