144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi seinni spurninguna veit ég ekki af hverju menn hlustuðu ekki nógu vel á Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar. Ég held að menn hefðu betur gert það vegna þess að ég sagði þetta alveg nákvæmlega. Ég get alveg spilað vídeó fyrir hv. þingmann sem sýnir það alveg statt og stöðugt þegar ég ræði að við getum að minnsta kosti verið að tala um 20 milljarða sparnað á ári vegna minnkandi skulda ríkisins, vegna þess að þetta svigrúm væri mögulegt að nýta og vegna þess að við ætlum að nýta það af því að við höfum hugmynd um hvernig við ætlum að nýta það.

Svo verð ég bara að fara aftur í gegnum tímalínuna, svo það sé alveg á hreinu hjá hv. þingmanni. Það var áætlun af hálfu síðustu ríkisstjórnar um að taka á slitabúum. Það var ekki í fyrstu áætluninni sem gerð er og birt 25. mars 2011 vegna þess að þá lá engin greining á þeim vanda fyrir og engar tillögur þar um frá Seðlabankanum og ekki heldur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En með lagabreytingunni, sem framsóknarmenn treystu sér ekki til að styðja og sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn 12. mars 2012, var þessi þáttur felldur inn í áætlun ríkisstjórnarinnar. Frá og með þeim tíma var það höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að kljást við þennan vanda.