144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þvert á móti. Þessi fjögur grundvallaratriði sem ég nefndi áðan við endurreisn efnahagslífsins og raunar endurreisn íslensks efnahagslífs í heild, hvort sem litið er til minnkandi atvinnuleysis, aukins útflutnings eða einhvers annars, byggist ekki hvað síst á því að við höfðum stjórn á eigin peningamálum. Við getum litið til Evrópu og þeirra vandræða sem til að mynda Grikkir eru að fást við akkúrat þessa dagana; borið það saman við þá stöðu sem við vorum í með stjórn eigin peningamála og raunar með stjórn eigin löggjafar og auðlinda líka, borið það saman við þá erfiðu ef ekki vonlausu stöðu sem Grikkir standa því miður frammi fyrir með evru sem gjaldmiðil.