144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Akkúrat þegar ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að standast freistinguna að vera með einhvern skæting og vera bara glaður, ljósið var meira að segja byrjað að blikka, þá missti hann sig, því miður. En ég tók það einmitt fram í fyrra svari mínu að þetta hefði verið skynsamleg ráðstöfun og ég tel ástæðu til að nota tækifærið hér og nefna sérstaklega tvo starfsmenn Seðlabanka Íslands sem eiga mikinn heiður af þessu öllu saman, þau Frey Hermannsson og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, (Gripið fram í.) sem skildu þörfina fyrir að gera þessar breytingar, breytingar sem komu til, eins og ég gat um áðan, eftir að menn úti í bæ höfðu áttað sig á geigvænlegri hættu sem stafaði af því ef slitabú bankanna slyppu út eins og hefði orðið raunin miðað við áætlanir frá 2011. Það var hins vegar erfitt að gera sér grein fyrir því á einum fundi hér niðri seint um kvöld eða um nótt hvort það nægði til þess að girða fyrir þá hættu. En það hefur gert það og það er gleðiefni, virðulegur forseti, og ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og virðulegur forseti (Forseti hringir.) eigum að leyfa okkur að gleðjast yfir því eins og aðrir. (ÖS: En hvað með Má og Steingrím J.?)