144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara skýra frá því að ég greiði atkvæði gegn því að hér verði opin heimild til kvöld- eða næturfundar í ljósi þess að forseti hefur ekki gefið nein svör. Ég hefði ekki greitt atkvæði gegn því að hér yrði kvöldfundur til að tryggja að 1. umr. lyki og málið gengi til nefndar. Mér finnst undarlegt að það skuli ekki einu sinni vera hægt að skýra þann þátt málsins, en ég væri algerlega andvígur því að farið yrði að þrengja að nefndarstarfinu með hótun um að taka svo málið aftur hingað inn til 2. og jafnvel 3. umr. og gera það að lögum einhvern tímann seint í nótt. Mér finnst skrýtið að hæstv. forseti skuli ekki sýna málinu og stöðunni hérna að minnsta kosti þá virðingu að gefa það einfaldlega upp. Ef heimildin er eingöngu til þess að tryggja að 1. umr. ljúki er það allt annað mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)