144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að spyrja frétta af stjórn þingsins. Hér erum við búin að vera í rúmar þrjár vikur án dagskrár. Hér hafa ekki farið fram sérstakar umræður, ekki verið hægt að vera með fyrirspurnir til munnlegs svars. Það hefur varla verið haldinn fundur í forsætisnefnd. Við í minni hlutanum erum tilbúin til þess að vera hér í allt sumar, það er ekkert vandamál, en við viljum fá dagskrá þannig að hægt sé að vinna, að við séum ekki bara með einhverja mótþróadagskrá ríkisstjórnarflokkanna. Það er ekki boðlegt, hæstv. forseti. Hér er bara boðið upp á mál eftir mál eftir mál og mótþróinn er svo mikill hjá þessari ríkisstjórn. Einn fulltrúi hennar talaði hér mjög digurbarkalega. Ég vil minna þann ágæta ráðherra á að stjórnarflokkarnir í þessari ríkisstjórn fengu innan við 50% atkvæða í síðustu kosningum. Það eru undirskriftalistar þar sem meira en 50 þús. manns mótmæla aðgerðum þeirra. Það eru síendurtekin mótmæli (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin hefur afar lítið fylgi. (Forseti hringir.) Nú legg ég til að forseti taki stjórn á þessum málum og ásamt (Forseti hringir.) forsætisnefnd búi til dagskrá fyrir okkur.