144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er verulega hugsi eftir gærdaginn og reyndar marga aðra vinnudaga. Nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fara statt og stöðugt í manninn í stað þess að gagnrýna aðferðirnar eða málefnin. Á meðan þingmenn leika þennan leik sitja nokkrir aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar úti í sal og hlæja hæðnislega að þeim orðum sem látin eru falla um ákveðna einstaklinga. Þetta er hópur sem stundar þetta í sameiningu og svo virðist sem hér sé um skipulagða hegðun að ræða.

Þetta er ljótur leikur og eingöngu gerður til að særa og gera lítið úr öðrum. Þó að okkur greini á um leiðir er ekkert sem réttlætir það að tala illa hvert um annað. Svona vinnubrögð segja meira um þá sem þau stunda en þá sem orðahríðin beinist að. Þessi vinnubrögð væru aldrei liðin á öðrum vinnustað en Alþingi. Á öðrum vinnustöðum væri fólk sem stundaði þetta og tæki ekki tiltali kallað á teppið og látið taka pokann sinn.

Einhver segir eflaust núna: En þetta var ekkert betra á síðasta kjörtímabili. Það er bara engin afsökun. Í mörg ár starfaði ég sem grunnskólakennari og í starfi mínu þurfti maður því miður stundum að vinna að málum og taka á málum sem tengdust einelti. Ég hef aldrei og mun aldrei leggja blessun mína yfir einelti af nokkrum toga og finnst það mjög rýr afsökun að segja: Þetta er í lagi því að einhver annar gerði þetta einu sinni.

Ég tel að stjórn þingsins verði að setjast niður og kanna með hvaða hætti við getum gert þennan vinnustað betri og einnig samskipti okkar sem hér störfum.

Kannski er eina leiðin að kalla til sérfræðing í mannauðsstjórnun eða þá sem komið hafa að eineltismálum af einhverjum toga og unnið að gerð eineltisáætlana til að vinna með okkur sem hér störfum. Þangað til bið ég alla hv. þingmenn að líta í eigin barm og skoða hvort það sé eitthvað í þeirra fari sem betur megi fara. Ég mun svo sannarlega ekki láta mitt eftir liggja í þeim málum.