144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera á sömu nótum og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir og ræða um störf þingsins. Ég verð að viðurkenna að maður opnar ekki fjölmiðil eða mætir á vinnustaði, ég mætti á eina þrjá, fjóra í morgun, án þess að fólk undrist það hvernig við, ég segi við þingmenn, högum okkur í vinnunni. Hér fer fram hráskinnaleikur af verstu gerð, það er bent á, eins og hér kom fram í fyrstu ræðunni, að þetta hafi verið stundað á síðasta kjörtímabili. Ég hef líka sagt það úr þessum stól hér áður að það er til háborinnar skammar hvernig það var. Það bætir ekkert stöðuna í dag. Mér finnst, kæru vinir í þessum sal, að hatrið og reiðin leiði þingmenn áfram í þingstörfunum. (ÖS: Hvaða vitleysa.) Jú, það er það, þetta er bara reiði sem kraumar í fólki og mér finnst að þeir sem voru hér á síðasta kjörtímabili séu uppfullir af reiði í garð hver annars og það setur mark á þingstörfin. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja eins og er að ég held að við öll verðum að taka þetta til okkar og reyna að bæta ástandið í húsinu. Framkoma í garð virðulegs forseta þingsins er líka algjörlega ósæmileg og óboðleg. Ég veit ekki betur en að hann reyni að standa sína plikt að fullu í erfiðu starfi. Það er erfitt þegar mótbárurnar eru miklar og á móti blæs að halda skútunni á beinni stefnu. Ég treysti honum, og engum öðrum betur, til þess að hann haldi áfram að beita sér fyrir því að ná sáttum í þinginu. Ég kalla eftir því af öllum aðilum, ég er ekkert að kenna einum eða neinum um það. Það er alltaf báðum að kenna þegar tveir deila. Ég legg ríka áherslu á það við okkur að við sýnum þjóðinni að við séum þess verðug að eiga heima á þessum vinnustað og skila honum þannig af okkur að það sé til sóma.