144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[12:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta frumvarp allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vildi hins vegar upplýsa þingið um að þar sem hér er verið að koma til móts við ákveðnar ábendingar, sem komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi breytingar á framlögum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem snúa að varasjóði húsnæðismála, þá er líklegt að ég muni í framhaldinu koma með frumvarp hingað sem gerir varasjóði húsnæðismála kleift að ganga á eigið fé því að enn eru örfá sveitarfélög í vanda með félagslegar kaupleiguíbúðir og eru með umsóknir þar inni. Ef ekki kemur lengur beint framlag inn í sjóðinn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þá erum við að skoða möguleikann á að hann gangi á eigið fé þannig að það verði hægt að klára það verkefni sem varasjóði húsnæðismála var falið.

Ég tel að það sé rétt að gera þetta með þeim hætti sem nefndin leggur hér til. Nefndin hefur upplýst um málið og við sjáum síðan til hvernig við náum að útfæra það með haustinu í nýjum frumvörpum um húsnæðismál.