144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skal ekki segja en í rauninni var tækifæri til þess að breyta áætluninni fram til þessa dags. Mér finnst stemningin vera orðin svolítið þannig með þessa ríkisfjármálaáætlun að hún sé frekar léttvægt plagg, þetta sé áætlun, við séum að gera þetta í fyrsta skipti og ætlum að læra af mistökunum, að þetta sé spá. Við lítum ekki eins á hana í minni hlutanum og í meiri hlutanum. Ég geri mér alveg grein fyrir að það er örugglega áskorun að koma með svona í fyrsta skipti. Þegar ég renndi yfir þingsályktunartillöguna á sínum tíma, um ríkisfjármálaáætlunina, þá fannst mér eins og ég væri að lesa litla heftið sem kemur með fjárlagafrumvarpinu. Hún var bara einhvers konar stöðumat með óljósar áætlanir til framtíðar.

Höftin setja vissulega strik í reikninginn. Eitt af því sem er stór óvissuþáttur eru vaxtagjöld ríkissjóðs, sem eru gríðarlega há. Ef hugmyndin er að greiða niður skuldir, sem verður vonandi, þá hefur það töluverð áhrif á þessa áætlun því að það verður meira umleikis. Ef við greiðum niður skuldir geta vaxtagjöldin lækkað um einhverja milljarða á ári. Á kannski að nota það til að greiða niður lífeyrisskuldbindingar? Það er talað um það í þessari áætlun að setja 5 milljarða til að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar. Ég skildi reyndar ekki út frá áætluninni hvort það ætti að gera það með lántöku eða einhverjum afgangi.

Ég vil bara vera alveg heiðarleg. Það er margt mjög óljóst hérna fyrir mér í þessari áætlun. Mér líður eins og meiri hlutinn taki þessu sem nokkuð léttvægu plaggi sem muni ekki einu sinni binda (Forseti hringir.) hendur ráðherra við fjárlagagerðina í haust.