144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[23:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér örstutt hljóðs til að fagna þessu frumvarpi og því að það lítur út fyrir að það nái fram að ganga. Þetta ákvæði er til óþurftar. Eina reynslan af því er að menn hafa verið dæmdir fyrir tjáningu skoðana sem ekki eru meiðandi. Frambjóðandi Vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar, sem skipaði heiðurssæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, Úlfar Þormóðsson, er mér vitanlega eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur þurft að þola þá ósvinnu að vera kærður og sakfelldur samkvæmt þessum lögum fyrir það eitt að gefa út spéblað. Það var á því herrans ári 1983 þegar við hv. flutningsmaður vorum þriggja og fjögurra ára og við hefðum, ef blaðið hefði ekki verið gert upptækt, jafnvel getað flett í því og lesið okkur til skemmtunar. En þökk sé ákvæðinu, sem nú fer að heyra sögunni til, hefur þetta blað verið ritskoðað svo ærlega að það er hvergi hægt að nálgast. Hugsanafrelsi Úlfars Þormóðssonar voru settar skorður með þessum lögum, málfrelsi hans. Ég vona að slíkar skorður verði aldrei aftur settar. Þökk sé frumvarpinu.