144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé tímabært og brýnt að fara í rækilega skoðun, ítarlega fýsileikakönnun á því að tengja saman höfuðborgarsvæðið og Suðurnes og kannski einhvern tíma inni í lengri framtíð Árborgarsvæðið og Vesturland með hagkvæmu og umhverfisvænu lestakerfi. Með vaxandi þjóð sem kannski telur 450 þúsund manns eftir nokkra áratugi og 2/3 til 3/4 hennar búa á þessu svæði þá kann vel að vera að þetta sé fýsilegur og spennandi kostur sem hafi mikla kosti í för með sér.

Varðandi að það skapi hættulegt fordæmi að ríkið komi með sveitarfélögunum að skoðun á svona stóru samgöngumáli þá hef ég aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Veit hv. þm. Höskuldur Þórhallsson ekki að ríkið á og rekur stærstu samgönguæðarnar líka á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautirnar? Það er stórkostlegt hagsmunamál fyrir ríkið, sem í viðbót styður almenningssamgöngur, ef þarna væri góð lausn sem drægi úr þörfinni fyrir (Forseti hringir.) dýrar framkvæmdir í þágu einkabíla, mengun o.s.frv. (Forseti hringir.)

Að lokum, virðulegi forseti, þá styð ég þessa tillögu (Forseti hringir.) þó að ég vilji að Reykjavíkurflugvöllur fái að vera í friði um sinn.