144. löggjafarþing — 142. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[14:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér heyrðist nú vera tilkynnt að breytingartillaga fylgdi málinu hér við 3. umr. Ef það er ekki misskilningur væri eðlilegt að einhver mælti fyrir henni. En ég held að það sé óhjákvæmilegt að segja örfá orð vegna orða hæstv. sjávarútvegsráðherra í atkvæðaskýringu við 2. umr. um þetta mál og þess málflutnings sem hér var uppi um veiðigjöld og ásakanir í garð stjórnarandstöðunnar um að hún væri sjálfri sér ósamkvæm í þeim efnum. Það hefur hún ekki verið í málflutningi sínum.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur í grófum dráttum gengið út á að góð afkoma sjávarútvegsins og gríðarleg fjármunamyndun í greininni á þessum miklu veltiárum geri það að verkum að sjávarútvegurinn geti lagt meira af mörkum og eigi að leggja meira af mörkum í sameiginlegar þarfir í samfélaginu og skila hærra hlutfalli af þeirri auðlindarentu sem augljóst er að er til staðar í íslenskum sjávarútvegi í dag. Mótbárurnar gegn því hafa verið þær af hálfu helstu hagsmunagæslumanna stórútgerðanna í landinu að litlu útgerðirnar þyldu það ekki. Engu að síður hefur sami meiri hluti staðið þannig að málum af þeim afar takmörkuðu fjármunum sem ráðstafað hefur verið til stuðnings minni útgerðum, sem sagt afslætti til minni aðila, hafði hrunið niður og var nánast orðinn að engu.

Í þessu frumvarpi eins og það kom upphaflega fram átti að verja um 50 millj. kr. í stuðning við minnstu útgerðirnar. Meiri hlutinn hefur að vísu hrökklast til þess núna að leggja fram gallaða tillögu um að veita afslátt sem nemur um 300 millj. kr. Það er verulega til bóta, en því miður er því hins vegar dreift þannig að stór hluti afsláttarins fer til stórra og stöndugra útgerðarfyrirtækja í stað þess að leitað sé útfærsluleiða (JónG: Það er rangt.) sem beina stuðningnum sem mest að hinum minni aðilum, ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir og segja: Það eru hinir litlu og meðalstóru aðilar sem eiga erfiðast með að bera þung veiðigjöld.

Það getur enginn deilt um að stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin í landinu gætu borið hærri veiðigjöld. Hversu miklu hærri getum við deilt um. En það er engin leið að halda því fram að fyrirtæki sem greiða eigendum sínum ár eftir ár tvöfaldar til þrefaldar fjárhæðir veiðigjaldanna í arð séu í vandræðum með þann hluta greiðslunnar. Á sama tíma hefur eigið fé þeirra verið að aukast í stórum skrefum og afkoman að batna.

Mér telst svo til að það sé líklegt að framlegðin í íslenskum sjávarútvegi, EBITDA í íslenskum sjávarútvegi, verði um 90 milljarðar kr. á þessu ári. Það er allt sem teiknar til þess að árið verði mjög gott, enn eitt árið í viðbót, sem verður þá sjöunda eða áttunda árið þar sem afkoma íslensks sjávarútvegs verður í sögulegu samhengi betri en nokkru sinni. Það er orðið verulega langt og gott góðæristímabil, enda hafa þau dramatísku umskipti orðið að eigið fé sjávarútvegsins, sem var neikvætt um 50 milljarða eða svo, 60 milljarða held ég meira að segja í árslok 2008, er orðið jákvætt um hátt á þriðja hundrað milljarða kr. Það hefur gerst á þessum árum. Það er glæsilegt. Sjávarútvegurinn hefur meira en endurheimt að fullu fjárhagslegan styrk sinn frá því sem best var fyrir hrun. Það er staðreynd.

Af þeim kannski 90 milljörðum kr. sem sjávarútvegurinn mun hafa í framlegð á þessu ári er með grófum útreikningi auðvelt að sýna fram á að 40–50 milljarðar eru auðlindarenta, þ.e. það er fjármunamyndun í greininni sem er umfram allar ríkulegar aðferðir við að áætla ávöxtun á eigið fé og fjármuni bundna í greininni. Það er bara þannig. Og ef menn taka árgreiðsluaðferð Hagstofunnar er auðlindarentan enn þá hærri hluti af þessu. En ef við segjum sem svo að við skulum nota hærri viðmiðun fyrir árgreiðslu, þ.e. ávöxtun á fjármuni bundna í greininni þannig að allir fái nú sitt, að fasteignir og fjármunir sem bundnir eru í rekstrinum séu með eðlilegri ávöxtun og allt eigið fé eigendanna í greininni sé með eðlilegri ávöxtun, segjum 8% eða 10%, stæði samt eftir mikil auðlindarenta. Þá snýst þetta um hvað er sanngjarnt að eigandi auðlindarinnar, þjóðin, fái af þessari rentu. Er það lítið brotabrot? Er það fjórðungur eða fimmtungur, eins og kannski er með núverandi veiðigjöldum, eða er það hærra hlutfall? Hvað á eigandinn að gera tilkall til að hann fái mikið í sinn hlut þess arðs sem sannarlegar er vegna aðgangsins að hinni verðmætu takmörkuðu auðlind? Það er grundvallarumræða um þessi mál sem þarf að hefja hér á þingi einstöku sinnum í staðinn fyrir þetta innistæðulausa pex um að sumir vilji vera vondir við þessa grein og aðrir ekki.

Auðvitað viljum við öll íslenskum sjávarútvegi vel. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir mikilvægi hans þó að hann sé kannski ekki lengur sá eini stóri burðarás íslensks efnahags- og atvinnulífs sem hann var. Það er í sjálfu sér vel vegna þess að það hefur ekki gerst vegna þess að sjávarútveginum vegni illa, heldur vegna þess að aðrar greinar hafa vaxið. Það er góð þróun í atvinnumálum okkar og efnahagsmálum.

En mér finnst ekki hægt að sitja undir umræðu af því tagi, ef umræðu skyldi kalla, sem fólgin var í atkvæðaskýringum eða andsvörum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, hér áðan. Ég ætla ekki að láta bjóða mér það. Ég læt ekki afflytja umræður um mál með þeim hætti og negla stjórnarandstöðuna upp á vegg þegar hún leggur fram tillögur með mjög málefnalegum hætti sem sýna að hægt væri að styðja betur við bakið á minni og meðalstórum útgerðum án þess að það kostaði mikinn afslátt. Þá þyrfti ekki að lækka veiðigjöldin eins og meiri hlutinn var að gera núna eina ferðina enn, væntanlega með … (Gripið fram í.) Já, en afslátt frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir.

Þá er meiri hlutinn kominn í þann mikla vanda að aðferðafræðin sem hann trúir núna á að hann hafi fundið upp með afkomustuðlum, dugði ekki lengi. Hún entist ekki lengi. Hún entist ekkert. Því að frumvarpið sem átti að innleiða þá aðferðafræði að nú væru komnir afkomustuðlar fyrir einstakar greinar — og þetta er allt voðalega fínt, það er nýsmíðin hjá hæstv. ráðherra og hans fólki — dugði ekki betur en svo að fara varð með handafli með sérstaka lækkun á tilteknar tegundir núna við lokaafgreiðslu málsins.

Má ég þá minna á allar umræðurnar um tilraunir manna til þess að nálgast þetta á almennum forsendum í fyrri tilraunum við álagningu veiðigjalda og fanga auðlindarentuna sem slíka og takast þá frekar á um það hvaða hlutfall af henni ætti að renna í sameiginlega sjóði landsmanna. Ég trúi því enn að sú aðferðafræði sé betri. Það er sú aðferðafræði sem verið hefur að þróast almennt í umhverfisréttinum og í skattalöggjöf í nágrannalöndunum. En Ísland er enn fast í gömlu hjólförunum, að minnsta kosti í höndum núverandi ráðamanna. Það á að fara með þetta til baka þannig að menn geti verið góðir við vini sína og gert bara það sem þeim sýnist með handafli þegar á þarf að halda.