144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[11:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld er komið til 3. umr. og umræða er komin að lokum vil ég segja í byrjun að því miður gat ég ekki verið við 2. umr. og atkvæðagreiðslu sem hefur verið um þetta mál og þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram, vegna þess að ég tók að mér, fyrir hönd virðulegs forseta Alþingis, að fara á fund forseta Vestnorræna sambandsins í Færeyjum síðustu tvo daga. Því vil ég nota tækifærið hér við 3. umr. og fara aðeins yfir frumvarpið, það mál sem enn einu sinni er til umræðu og mun vafalaust verða á komandi árum.

Það er líka mjög gott, eins og ég átti kost á, að heimsækja frændur okkar Færeyinga og ræða þau mál sem þar voru á dagskrá. Það var kannski enn mikilvægara að geta sest niður með þeim og rætt við þá meðal annars um fiskveiðistjórn, um veiðigjöld, hvernig kvótum er úthlutað og bera það saman, þ.e. sem við erum að gera og frændur okkar Færeyingar. Það var til dæmis mjög ánægjuleg kvöldstund þegar við skiptumst á skoðunum við kollega okkar um uppboð á makrílkvóta, sem átti sér stað árið 2011, og lesa stóra og mikla skýrslu sem norskur sérfræðingur hefur skrifað fyrir færeyska jafnaðarflokkinn og tók saman 80 síðna skýrslu um það og ýmislegt fleira í fiskveiðistjórnarmálum. Sitt sýnist hverjum. Þar eru líka deilur eins og hér, hvernig úthluta á kvótum, hvernig á að veiða, hvernig á að fá sem mestan arð út úr þeim veiðum, hvaða rekstrarskilyrði eiga fyrirtækin að hafa og til hve langs tíma o.s.frv. Þetta var mjög ánægjulegt samtal. Ég kem miklu fróðari heim um hvað þeir eru að hugsa og hvaða umræða er þar. Þeir sögðu líka að þeir væru fróðari eftir samtal okkar um hvað við erum að gera á Íslandi og vitna oft í fiskveiðistjórnarkerfi okkar og miklar umræður voru einmitt um álagningu veiðigjalda eins og við erum að ræða hér og nú, hvaða aðferð er notuð og hvernig menn sjá þetta í framtíðinni.

Ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa ályktað um það að sjávarútvegurinn sem fær úthlutað fiskveiðiheimildum, veiðir fiskinn sem þjóðin á í sjónum, sem er sameiginleg auðlind, allir flokkar hafa ályktað um það að fyrir það skuli greiða hóflegt veiðigjald. Allir flokkar. En í nefndaráliti, sem ég skrifa upp á ásamt hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur, er líka fjallað um það hvaða aðferðafræði við ættum að nota. Ég vildi, til að taka saman á einn stað, draga fram það sem kemur fram í nefndarálitinu hvernig veiðigjöld hafa þróast í gegnum árin, en þau eru í raun og veru fyrst lögð á fiskveiðiárið 2002/2003. Í nefndaráliti okkar er hægt að sjá þessa þróun. Í nefndarálitinu dreg ég líka fram þau gögn sem við höfum, sem talið er að séu bestu gögn um afkomu veiða og vinnslu, þ.e. tölfræðin sem Hagstofan tekur saman og hefur gert í áratugi. En eins og Hagstofan segir sjálf, og ég er í raun og veru sammála því, var þessi tölfræði aldrei hugsuð sem skattstofn til að leggja á veiðigjöld. Þess vegna hafa verið gerðar breytingar sem við erum að vinna okkur að og tekur tvö ár í viðbót, að ná betur í rauntímaupplýsingar til að leggja á hóflegt veiðigjald. Síðan verði hér á Alþingi vonandi samkomulag milli allra flokka hvað hóflegt veiðigjald er, hvað þjóðin á að fá í greiðslu fyrir nýtingu á þessari sameiginlegu auðlind.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að segja að auðvitað á það að eiga við um aðrar auðlindir landsins. Minni þó á að við erum að fá, allir Íslendingar, í raun og veru auðlindagjald á okkar orku á hverjum einasta degi með mjög lágu og sögulega lágu orkugjaldi, sama hvort það er fyrir rafmagn eða heitt vatn. Það er auðlindagjald sem þjóðin fær af orkunni eins og er í dag. En við vitum og höfum heyrt upplýsingar um hvað Landsvirkjun mun gefa af sér í arð á komandi árum sem verður þá aukaarður hvað þetta varðar.

En aftur að fiskveiðistjórn og veiðigjaldi. Þau bestu gögn sem menn telja sig hafa og veiðigjaldsnefnd notar í útreikningum sínum við útreikning á afkomustuðlum og áætluð veiðigjöld eru niðurstöðutölur frá Hagstofunni, sem þó eru allt að tveggja ára gömul gögn. Þannig erum við að takast á um það hérna núna að leggja á veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár eftir þeim útreikningum og niðurstöðum sem koma út úr veiðum og vinnslu árið 2013. Þar er afkoman fyrir árið 2013 sem betur fer miklum mun betri en fyrir árið 2012 þar sem hreinn hagnaður greinarinnar var árið 2012 um 46 milljarðar kr., en árið 2013 var hann kominn upp í 61 milljarð. Þannig að skattstofninn sem við erum að leggja á núna eru þessar afkomutölur og vinna veiðigjaldsnefndar vegna ársins 2013. Það hef ég áður sagt að er ekki góður grunnur til að leggja á. Að leggja á veiðigjöld verður að vera virkt í raun og veru miðað við daginn í dag eða það sem er að gerast á viðkomandi ári. Ef ástand er gott á mörkuðum og fiskast vel og mikil og góð sala er á háu verði, sem á náttúrlega alltaf að vera keppikefli okkar og er, þá greiðir greinin hærra veiðigjald. Gerist hins vegar eitthvað á mörkuðum eins og ýmislegt bendir til núna, t.d. hvað varðar makríl út af ástandi í Úkraínu og Rússlandi, þá getur verð fallið og þá er auðvitað mjög eðlilegt að veiðigjöld verði lægri það árið. En ef þetta mundi gerast í sumar, sem ég vona auðvitað að gerist ekki hvað varðar sölu og afurðaverð fyrir makríl, þá kemur til lægri veiðigjalda eftir tvö fiskveiðiár. Við sjáum auðvitað að það gengur ekki.

Virðulegi forseti. Síðan kemur annar þáttur inn í þetta og verður alltaf deiluefni, það er hverjir geta borgað veiðigjald. Það hefur alltaf komið fram í vinnu atvinnuveganefndar alveg frá því kerfinu var breytt og nýtt veiðigjald lagt á fyrir árin 2013/2014, ef ég man rétt, að hið sérstaka veiðigjald kom þá fyrst inn, þá hefur alltaf þurft að taka tillit til þeirra þátta og ræða það. Þess vegna segi ég að mjög mikilvægt er að við reynum að þróa okkur í átt að því að verða sammála um hver stofninn eigi að vera, og það verður þá kannski ákvörðun hér á Alþingi hvert gjaldið er. En stóru, sterku fyrirtækin hafa sagt, og kom fram á aðalfundi hjá einu af stærstu fyrirtækjunum, þ.e. HB Granda, þar sem stjórnarformaður þess, Kristján Loftsson, sagði á aðalfundi að það fyrirtæki gæti greitt sín veiðigjöld og væri ekkert óánægt með það, en bætti því auðvitað við að það væri vonandi þáttur í því að skapa meiri sátt um greinina.

Þannig var það þegar var verið að vinna þetta á sínum tíma, við sáum töflu yfir 25 stærstu fyrirtæki sem greiða ábyggilega 85–90% af gjaldinu í dag. Þau eru kannski aflögufær. En þá kemur vandamálið að nota sömu aðferðafræði fyrir þá sem eru með 50 tonn, 100 tonn, 200 tonn eða 500 tonn. Þó svo að ég vilji nú ekki eingöngu taka undir það og segja að samþjöppun hafi átt sér stað í greininni vegna veiðigjaldanna, ég vil ekki taka svo djúpt í árinni og tel að menn séu frekar að nota sér það sem afsökun fyrir það að selja sig út úr greininni, þá má það ekki verða þannig að álagning veiðigjalda verði alltaf það flöt og eins fyrir alla, jafnt allra stærstu, smáu og meðalstóru, að það geti leitt til samþjöppunar í greininni. Það held ég að sé ekki okkur til góðs. Vafalaust yrði það mjög hagkvæmur og góður rekstur ef öll fiskveiði færi fram í gegnum eitt fyrirtæki, en það verður vonandi aldrei.

Þess vegna var í breytingartillögu okkar minni hlutans sett inn aukin upphæð og hækkuð úr 300 milljónum, sem er áætlað í dag að fari í svokallað frítekjumark eða afslátt upp í 500 milljónir eða aukið um 200 milljónir og útfært á þann hátt sem þarna er. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég gat ekki tekið þátt í þeirri vinnu og útfærslu við það, en stend að sjálfsögðu bak við það og vona að það sé bara hin besta leið sem valin var með aðstoð góðra manna. En ég ætla líka að segja það, virðulegi forseti, og það er það sem við gagnrýnum mjög í nefndaráliti okkar hvað málið kom seint fram og í raun og veru hefur ekki verið unnið mikið með það, það var fjórar vikur í atvinnuveganefnd og þá var ekkert unnið með málið.

En það sem ég er að segja einfaldlega, virðulegi forseti, er að okkur alþingismenn skortir betri gögn til að vinna með álagningu veiðigjalda til að reyna að komast að niðurstöðu hvað sé hóflegt veiðigjald hvers fiskveiðiárs. Þetta eru mjög flóknir útreikningar og gögn eru yfirleitt þannig að maður er ekki viss um hvort allur afli er kominn inn. Stundum vantar kannski stóran hluta af loðnu, stundum vantar aukninguna sem hefur verið í þorskveiðum og öðru slíku, þannig að það er svolítið flókið mál að finna þetta út. Vonandi verður það þannig að okkur takist að færa okkur fram á við í átt til betri sátta þannig að við förum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um gjaldstofninn, hver afkoman er og þá stendur eftir hvað á að borga. En eins og sagt er í nefndaráliti, þá er það svo ef ég man rétt að á þessu fiskveiðiári er veiðigjald, heildarveiðigjald, sem greitt er til ríkisins af öllum fyrirtækjum, jafnt stórum sem smáum, í kringum 17,2% af hreinum hagnaði, eða EBT, veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni. Ef sú sama tala væri núna væri það hærra út af auknum afla og síðast en ekki síst miklu betri afkomu, sem er ánægjulegt að geta talað um, sem er milli áranna 2012 og 2013.

En grundvallaratriðið og það stærsta sem ég vildi nefna, virðulegi forseti, er að ég held að við séum áfram að færa okkur í átt að því að hafa kerfið klárt sem við ætlum að vinna eftir. Það er mikilvægt. Þá stendur eftir gjaldið. Í stuttu máli er það þetta sem ég vildi koma hérna á framfæri við 3. umr. málsins, en ítreka það sem ég sagði áðan að í þessari töflu eru fróðlegar upplýsingar hvernig þetta gjald hefur verið lagt á, eins og kemur þar fram, uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs, þá voru heildarveiðigjöldin fiskveiðiárið 2012/2013 um 10,4 milljarðar kr. og höfðu þá hækkað úr rúmum 4 milljörðum árið þar á undan. Þar er auðvitað stærst inni að sérstaka veiðigjaldið kom þar inn og almenna gjaldið var hækkað líka. Það var á okkar erfiðleikaárum sem þetta var gert. En ég minni líka á að þarna var töluvert mikið að breytast í umhverfi sjávarútvegsins, bæði hvað varðar skuldalækkun, auðvitað þannig að við vorum að fá miklu meira fyrir afurðir okkar út af hruni krónunnar, en almenningur fær svo aftur hinar afleiðingarnar af hruni krónunnar, þ.e. að allt verður dýrara í landinu.

Hinn gullni meðalvegur er vandrataður í þessu eins og svo mörgu öðru. En aðalatriðið er að hér er tekist á um það hvert gjaldið skuli vera á næsta ári. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það var fróðlegt að ræða við frændur okkar Færeyinga um hvernig þetta er gert. Það var líka athyglisvert að hlusta á hvernig þeir hugsa til okkar og horfa til þess hvort þeir eigi að gera eitthvað svipað. Þetta vildi ég láta koma fram á þessu síðasta stigi við þessa síðustu umræðu um veiðigjöldin.

Ég segi líka, virðulegi forseti, miðað við það að meiri hlutinn þarf að fara að gera breytingartillögur út frá því kerfi sem meiri hlutinn setti á síðasta ári, að fara þurfi að breyta því, þá er ég alveg 100% sannfærður um að þetta á að vera til eins árs en ekki þriggja ára. Hvað ætla menn að gera ef árið 2014 breytist mikið frá því sem var 2013, (Forseti hringir.) til dæmis hvað varðar reiknaðan gengismun eða (Forseti hringir.) ástand á mörkuðum?