144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir flest af því sem hv. þm. Kristján L. Möller segir um þetta frumvarp sem er, eins og fram kom, frá meiri hluta atvinnuveganefndar, sem ég gleymdi að taka fram áðan. Varðandi gjaldtökuna er ég þeirrar skoðunar og var þeirrar skoðunar í nefndinni að þær 16 kr. sem síldin var seld á á síðasta ári væri fullhátt gjald, bæði miðað við veiðigjöld og eins miðað við afkomu og verð á mörkuðum á síld og þegar þetta frumvarp kemur inn varðandi makrílinn, þar sem fram kemur að makríllinn eigi að vera 8 kr. Síðan voru lagðar 10 kr., sem menn muna kannski eftir, sem átti að vera sérstakt gjald á makríl þegar hann væri aflahlutdeildarsettur, sem var reyndar ekki gert. Í veiðigjaldafrumvarpinu eru 8 kr. á makrílinn, þannig að þetta samsvarar því. Okkur fannst það rétt og ég skil það þannig að þessar 8 kr. séu þá það sem nemur í rauninni veiðigjaldi af þessum tegundum.

Þetta er kannski málamyndagjald en auðvitað er þetta töluvert hátt og 16 kr. eru, held ég, allt of hátt þegar tekið er mið af því að verð á mörkuðum gæti verið á bilinu 40–70 kr. Þá sjáum við að 16 kr. er of hátt og við þurfum að fara varlega í því. Við vorum með sérstök afsláttarkjör til smábáta í veiðigjaldafrumvarpinu og ég held að þetta sé sanngjörn greiðsla og sambærileg á milli þessara tegunda. Við getum auðvitað deilt um það hvort hún eigi að vera 8 kr. en ég held að á þessum báðum tegundum ætti að vera sama gjald, eins og hér kemur fram. Ég vona að þetta sé nægjanlegt.