144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

479. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

Utanríkismálanefnd hefur fengið á sinn fund formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, framkvæmdastjóra ráðsins auk fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunina má rekja til notkunar á svartolíu. Því verði beint til landanna að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun með því að krefjast þess að notað sé eldsneyti sem mengar minna og tækjabúnaður sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa.

Tillagan byggist á ályktun nr. 2/2014, sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 3. september 2014 í Vestmannaeyjum en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.

Í greinargerð með tillögunni koma ekki fram upplýsingar um hvaða reglur gilda um losun brennisteins frá skipum í vestnorrænu löndunum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tilskipanir Evrópusambandsins um leyfilegt innihald brennisteins í skipaolíu gilda á EES- svæðinu. Þær tilskipanir hafa verið innleiddar á Norðurlöndunum og var innleiðingu á síðustu tilskipun um þetta efni nýlega lokið hérlendis, samanber reglugerð nr. 124/2015, um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Í reglugerðinni er kveðið á um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þar með talið svartolíu sem notuð er eða sem ætluð er til nota í skipum eða bátum, sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands skuli vera að hámarki 2,0% (m/m), að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi. Stefnumótun íslenskra stjórnvalda liggur skýrt fyrir í þessum málaflokki og hefur viðmiðið um 2% hámark brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti verið í gildi frá 2007. Fram kom í máli gesta að hvetja mætti færeysk og grænlensk stjórnvöld til að setja sambærilegar reglur um takmörkun brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti. Enn fremur væri mikilvægt að hvetja Grænlendinga og Færeyinga til aukinnar þátttöku í norrænum verkefnum á sviði mengunarvarna, m.a. Marina-verkefninu um minni útblástur og notkun vistvænnar orku á sjó, sem ýtt var úr vör í febrúar 2014.

Nefndin telur eðlilegt að ríkisstjórn Íslands deili upplýsingum um hérlenda stefnumótun og aðgerðir til að draga úr brennisteinsútblæstri með landsstjórnum Færeyja og Grænlands og eigi við þær samstarf á þessu sviði.

Nefndin gerir tillögu um eina orðalagsbreytingu fyrir skýrleika sakir og leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu. Breytingin fylgir í nefndaráliti. Í stuttu máli segir þar að í stað orðsins „sjósiglingar“ í lok tillögugreinarinnar komi orðið fraktflutninga, og er það skýrt í tillögunni.

Undir þetta rita þann 22. apríl síðastliðinn hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Ásmundur Einar Daðason, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé, Össur Skarphéðinsson, með fyrirvara, en Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.